138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt. Ég gerði ekki ágreining um hvort misræmi væri í tölum enda fór fjárlaganefnd vandlega yfir það misræmi sem var til staðar í upphafi. Þetta var lokaniðurstaðan og engin ástæða til að draga hana í efa.

Það sem gerist er að hér erum við loksins komin með lokaniðurstöðu. Við vitum nákvæmlega hvert tapið var. Fjárlaganefnd hefur komist að því með vinnu sinni hvert tapið var og á þessum tímapunkti tel ég einfaldlega rétt að þessu frumvarpi verði hafnað þar til búið er að gera stjórnsýsluúttekt á því hvað gerðist. Það er ekki endilega mikill ágreiningur um hvort eigi að gera þessa úttekt heldur hvort þetta sé rétti tímapunkturinn til þess.

Ég fyllist tortryggni vegna þess að ég hef óskað eftir þessari úttekt í þó nokkur skipti í fjárlaganefnd en hún hefur enn ekki verið gerð og ég velti því fyrir mér hversu langur tími mun þá líða þar til þetta verður skoðað ef það verður einhvern tíma gert.