138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að bjóða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra velkominn hingað í þingið. Við höfum undanfarna daga í þessari viku og þeirri þar síðustu rætt ein umfangsmestu lög sem hann hefur á sinni könnu. Því miður gat hann ekki hlustað á það af einhverjum ástæðum, en það er annað mál.

Hér ræðum við breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum. Það er ljóst að það hefur gríðarlega mikið gerst núna síðustu daga í sambandi við gjaldeyrishöftin. Það var talið hér fyrir rúmum hálfum mánuði síðan að krónueign erlendra lögaðila á Íslandi væri í kringum 460–480 milljarðar. Seðlabankinn gerði samning við Seðlabankann í Lúxemborg um að leysa til sín svokallaðan Avens-vafning. Við það minnkaði þessi þrýstingur um ¼ og nú hafa lífeyrissjóðirnir keypt undirliggjandi bréf í vafningnum sem eykur gjaldeyrisforðann álíka mikið og lánið frá lúxemborgska seðlabankanum. Það er því ljóst að þrýstingurinn á krónuna er óðum að minnka.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. efnahagsráðherra að því hvað þessum gjaldeyrishöftum líður. Hér er verið að herða lög og reglur og annað slíkt sem gerir stjórnvöldum kleift að halda þessum málum enn frekar í greipum sér. Er kannski enginn áhugi á því að búa til lög sem aflétta þessum höftum?