138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er vitaskuld þannig að mér þykir það jafnóþægileg staða og hv. þingmanni, og líklega Íslendingum nær öllum, að búa við þessi höft. Ég verð án efa jafnfeginn og hv. þingmaður þegar við getum aflétt þeim að fullu. Tímasetningar hvað það varðar hafa hins vegar ekki verið ákvarðaðar. Það hefur verið ákveðið hvernig það verður gert, þ.e. í hvaða röð. Það verður vitaskuld fyrst og fremst á forræði Seðlabankans að stýra því ferli. Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, hefur nýlega og reyndar ítrekað lýst því yfir, að hann telji að það verði svigrúm til þess að taka slík skref þegar þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins liggur fyrir, sem gæti orðið upp úr miðju sumri. Ég vona innilega að það geti gengið eftir. Ég vona jafnframt að þessi skref geti orðið tiltölulega hröð og stór þó að ég vilji vitaskuld ekki lofa því, því skrefin eru skilyrt. Það kemur fram í áætluninni sem lögð hefur verið fram, hversu ört verður stigið fram og hversu stór skref verða tekin hverju sinni. Það fer eftir því hvernig til tekst. Þá verður horft til þess hvernig gjaldeyrisforðanum reiðir af, hvort mikið reynir á hann þegar byrjað er að afnema höftin, hvort krónan gefur eftir og hvort menn telja að frekari skref muni valda miklum óróleika, sérstaklega á gjaldeyrismörkuðum. Nú verðum við bara að vona og trúa að þessi skilyrði verði öll uppfyllt. Þá verður hægt að afnema höftin fyrr en varir.