138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að þegar hæstv. ráðherra lætur svo lítið að láta sjá sig hér í þinginu verða þingmenn auðvitað að nota tækifærið og spyrja hann spurninga sem þeir fá ekki svör við.

Hæstv. ráðherra hefur á undanförum vikum og mánuðum lagt fram gríðarlega umfangsmikil frumvörp sem varða fjármálamarkaðinn og allt fjármálakerfið. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar á sama tíma þrýst á um það, aftur og aftur, að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hverjir séu eigendur þeirra tveggja viðskiptabanka sem einkavæddir hafa verið, þ.e. Arion banka og Íslandsbanka.

Á það var minnt í dag að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lagði fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra Gylfa Magnússonar þann 28. apríl, þar sem spurt var hverjir væru eigendur þessara banka og hvaða kröfuhafar væru að bak þeim. Engin svör hafa enn þá borist við þessu þrátt fyrir að í þingskapalögum sé kveðið á um að ráðherra beri að svara fyrirspurnum að jafnaði eigi síðar en 10 virkum dögum eftir að fyrirspurn hefur komið fram. Ég hlýt að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra að því hvenær búast megi við svörum frá honum við þeirri fyrirspurn sem ég nefndi hér.