138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn.

Því er nú fyrst til að svara, að allt sem vita þarf um þessa banka liggur fyrir í grundvallaratriðum. Það liggur fyrir hverjir stjórna þeim. Það liggur fyrir hverjir stjórna þeim sem velja stjórnendurna. Það liggur fyrir með hvaða hætti þetta er allt saman gert. Það liggur fyrir að þessir tveir bankar sem hv. þingmaður vísaði til, Arion banki og Íslandsbanki, eru formlega í eigu eignarhaldsfélaga. Það liggur fyrir hverjir stjórna þeim eignarhaldsfélögum. Það liggur jafnframt fyrir að þau eignarhaldsfélög eru meðal eigna þrotabúa gömlu bankanna og það liggur fyrir hverjir stjórna þeim.

Það liggur jafnframt nokkurn veginn fyrir hverjir hafa lýst kröfum í þessa föllnu banka þó að einhverjar breytingar kunni að hafa orðið þar á með framsali krafna, eins og gerist.

Þannig að myndin er skýr. Ábyrgðin er skýr. Stjórnendastrúktúrinn er skýr. Ég fæ því ekki séð nákvæmlega hvaða vandamál það er sem þingmaðurinn rekst á í þessu samhengi. (Gripið fram í.)

Það var meira að segja gengið svo langt, þótt það sé nú kannski ekki opinber birting upplýsinga, að birta þessa kröfuskrá í heild sinni á vefnum hjá a.m.k. öðrum bankanum. Þeir sem hafa áhuga á þessu í smáatriðum geta því vafalaust fundið þá skrá á netinu. Það er kannski aðeins erfiðara að finna hana heldur en þær upplýsingar sem ég vísaði hv. þingmanni Tryggva Þór Herbertssyni á hér áðan en ætti nú ekki að vera sæmilega tölvuglöggu fólki ofviða.

Þannig að allt liggur þetta fyrir.

Það liggur jafnframt fyrir að kröfuhafar sem gera kröfur í hina föllnu banka stýra ekki nýju bönkunum með einum eða neinum hætti. Raunar ætla ég að ganga svo langt að fullyrða, að ekki sé útlit fyrir að þeir muni nokkurn tíma stýra hinum nýju bönkum. Þeir eiga kröfu á afrakstrinum af sölu bankanna þegar þar að kemur, það skiptir auðvitað máli, en því fer fjarri að það sé það sama og að stýra bönkunum eða hafa einhver áhrif á stjórn þeirra.