138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef þetta er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að eignarhald á hinum nýju einkavæddu bönkum, Arion banka og Íslandsbanka, liggi allt saman fyrir, þá ætti ekki að vefjast fyrir hæstv. ráðherra að svara fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem óskar eftir upplýsingum um það hverjir þessir kröfuhafar eru og hverjir eigendur bankanna raunverulega eru. Einhverra hluta vegna hefur þeirri fyrirspurn ekki verið svarað síðan 28. apríl. Ég hefði haldið, ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því að leggja svarið fram. Einhverra hluta vegna bíðum við og bíðum og engin svör fást.

Ég bendi á það að hv. þingmaður Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, hefur viðurkennt og fallist á með okkur í stjórnarandstöðunni að ófært sé hversu illa ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hafa staðið sig í því að upplýsa um eignarhald þessara banka. Auðvitað er þetta mjög mikilvægt þegar við fjöllum um lykillöggjöf sem varðar fjármálamarkaðinn, ég tala nú ekki um þegar við ræðum nýtt frumvarp hæstv. ráðherra um að stofna nýjan tryggingarsjóð innstæðueigenda. Þar á jafnvel að leggja ríkisábyrgð við skuldbindingum sjóðsins, vegna falls einhverra af þessum bönkum.

Það er algjört lágmark, m.a. með hliðsjón af því máli, að hæstv. ráðherra taki sig til og verði við þeim óskum frá þingmönnum, frá þinginu sjálfu, að við fáum að vita hverjir það eru sem eiga viðskiptabankana. Það er ekki til mikils ætlast. Og ef það er rétt að þetta liggi allt saman fyrir, skora ég á hæstv. ráðherra að svara þessari fyrirspurn sem ég vísaði til, og upplýsa þingið um það hvenær það svar verður lagt fram.