138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[20:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalög, með síðari breytingum. Það var verið að dreifa þessu máli þannig að ég hef eiginlega ekkert um það að segja nema það sem ég er búinn að fara yfir í mjög miklum flýti. Við vorum hérna í atkvæðagreiðslu og ég sá á dagskránni að það var komið nýtt mál til umræðu. Það var svo tekið inn með afbrigðum og eftir atkvæðagreiðsluna gat ég loksins farið að skoða þetta mál þannig að þessi ræða hlýtur að skoðast í því ljósi.

Ég vil benda frú forseta á það að við erum í auknum mæli farin að slá slöku við vönduð vinnubrögð hér. Á dagskrá síðasta fundar hér áðan var fjöldi mála á dagskrá, það er allt í lagi, en þar var ekki getið um alla vega þrjú nefndarálit sem þó voru rædd þótt þau væru ekki á dagskránni sjálfri. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera orðinn ansi mikill hraði og vil þess vegna mælast til þess við hæstv. forseta að hún kanni hvort ekki sé hægt að leggja málin eitthvað fyrr fram.

Þetta frumvarp flytur rannsóknarskylduna frá Fjármálaeftirliti til Seðlabankans. Það er eitthvað sem var rætt hér í upphafi þegar þessi vandræðagjaldeyrishöft voru sett á af illri nauðsyn, að menn töldu þá. Þetta er eflaust mjög skynsamlegt en segir mér hins vegar að menn ætla ekkert að fara að aflétta þessum höftum. Menn færu varla að flytja verkefni frá Fjármálaeftirliti til Seðlabanka ef til stæði að aflétta höftunum, þannig að það er nú það fyrsta.

Ég hef ekki getað kannað það, frú forseti, hvort verið sé að skerpa á reglunum eða breyta í þá veru, en þegar maður les þetta eru þetta óskaplega sterkar heimildir sem Seðlabankinn fær. Ég leyfi mér að lesa hérna úr 8. greininni sem er breyting á 15. greininni, með leyfi frú forseta:

„Í tengslum við rannsókn mála er Seðlabanka Íslands heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg.“

Það er bara ekkert annað, hann bara ákveður þetta hvort sem það eru sjúkragögn eða annað.

„Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans.“

Síðan kemur:

„Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarkar ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.“

Þetta er óskaplega víðtækt, eða mér sýnist svo. Ég er ekki búinn að bera þetta saman við hvernig þetta var áður, kannski er þetta nákvæmlega eins. Það helgast af þeim hraða sem er á því í umræðunni, eins og ég gat um í upphafi, ég get varla talað um þetta mál vegna þess hraða. Ég hef ekki getað borið það saman við þau lög sem verið er að breyta. Dagsektirnar eru 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag og það er reyndar heimilt að kæra það. Á meðan kæran stendur yfir þarf maður ekki að borga og málið fer ekki í aðför á þeim tíma. En að öðru leyti er þessu háttað eins og með gjaldeyrishöftin, mótaðilinn finnur yfirleitt einhverjar smugur fram hjá og þá þarf að herða reglurnar. Svo finna menn aftur smugu og þá þarf að herða reglurnar enn. Þetta er eiginlega spurning um gáfnafar gegn gáfnafari, hver er klókastur að finna leiðir, því miður. Ef þetta stendur of lengi endum við annað hvort með einhverja gjaldeyrislögreglu eða hér verður skrautlegt siðleysi, menn munu brjóta lögin, því miður.

Lífeyrissjóðirnir áttu nýlega mjög áhugaverð viðskipti við Seðlabankann og Seðlabankinn á nú enn þá áhugaverðari viðskipti við Seðlabanka Evrópu og einhverja banka í Lúxemborg um leiðréttingar, sem ég hefði nú talið að mundi létta á þrýstingnum á krónuna. Krónan hefur verið að styrkjast og Seðlabankinn er nánast alveg hættur, að mér skilst, að blanda sér í þau mál þannig að þetta virðist allt vera á góðri leið. Ég átti nú von á því þegar ég sá gjaldeyrismál á dagskrá að menn væru hreinlega að tilkynna að nú ætluðu þeir að aflétta þessu, en svo var ekki og vonbrigði mín eru náttúrlega mikil sem því nemur.

Ég vona að hv. nefnd fari vandlega yfir þessi mál og skoði þau og menn fái pínulítið meiri tíma til að vinna málin.

Ég verð að vara við þessum óskaplega hraða. Ég skil að það var þörf á því stuttu eftir hrun, þá þurfti að gera alls konar hluti mjög hratt, óvissan var mjög mikil o.s.frv. En núna er ekki sama staða uppi og það ætti að vera hægt að koma með frumvarp tveimur, þremur dögum fyrr inn í þingið til þess að hv. þingmenn geti nú kannað alla vega þau lög sem verið er að breyta og hvaða breytingar er verið að gera á lögum og átta sig á hvernig þetta virkar gagnvart öðrum þáttum.

Ég vona bara að hv. nefnd taki þetta mál til nákvæmrar skoðunar. Kannski dettur henni í hug að aflétta gjaldeyrishöftunum.