138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:36]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega segja að úrræðin sem um er að ræða séu tvíþætt. Það sem dómsmálaráðherra mælir fyrir er leiga í allt að tólf mánuði eftir að fólk hefur misst íbúðina sem almennur réttur og byggir á því sem nú er í lögunum um Íbúðalánasjóð. Það sem við viljum innleiða núna er nýtt markaðskerfi, þ.e. markaðsleiga, og er þá gerður langtímaleigusamningur. Hugsunin er sú að hann verði a.m.k. gerður til þess tíma sem kauprétturinn verður virkur, eftir þrjú ár, og jafnvel til fimm ára þannig að einhver hvati sé í kerfinu til að nýta kaupréttinn og fólk njóti einhvers með því að nýta hann en hafi í reynd bara greitt leigu kjósi það að nýta hann ekki. Það er hugsunin á bak við kerfið. Verið er að reikna tvær útfærslur sem koma til greina en það er í sjálfu sér útfærsluatriði hvernig við klárum það nákvæmlega.

Síðan er auðvitað þriðja úrræðið sem nú er til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd og er sú breyting á tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðlánanna að fólk geti greitt eins og það getur í allt að fimm ár ef það hefur orðið fyrir tímabundnu tekjufalli.

Það má svo sem segja að ólíkir hlutir séu lagðir til grundvallar hverju og einu. Við erum fyrst og fremst að tala um kerfi út frá markaðnum þar sem lögð er áhersla á að greidd sé markaðsleiga. Verktakar og bankar hafa auðvitað verið að fikra sig áfram með lausnir af þessum toga. Íbúðalánasjóður hefur fikrað sig áfram með svona lausnir. Mikilvægt er að skapa traustan lagagrunn undir þetta og gefa fólki það sem almennan rétt.