138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna framkomu þessa frumvarps. Í því er vísir að grundvallarbreytingum á íslenskum húsnæðismarkaði og það er löngu kominn tími til að við reynum að skera okkur niður úr þeirri snöru sem séreignarstefnan hefur verið á Íslandi. Það má segja að séreignarstefnan á húsnæðismarkaði á Íslandi sé vistarband nútímans.

Það eru fjórir þættir í þessu frumvarpi og mig langar að ræða stuttlega hvern og einn þeirra. Sá fyrsti varðar leigu með kauprétti sem ég tel mjög mikilvægan. Reyndar, eins og ráðherra kom inn á, er miðað við markaðsleigu sem ég held að sé mjög mikilvægt til lengri tíma og skiptir máli til að skapa fólki búsetuöryggi. Það er nú það sem fólk sækist helst eftir, ungt fólk sem er að kaupa sér húsnæði. Það er að kaupa sér húsnæðisöryggi því að litlir möguleikar eru á langtímaleigusamningum nema viðkomandi hreinlega uppfylli skilyrði um félagsleg úrræði og er það mikill ljóður á okkar núverandi kerfi.

Þá er hér verið að ræða um að bjóða óverðtryggð lán á vegum Íbúðalánasjóðs sem er ný heimild fyrir sjóðinn. Ég held að það sé ágætt og í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að auka framboð af óverðtryggðum húsnæðislánum. Svo á eftir að koma í ljós hvort fólk er tilbúið til að taka áhættuna sem því fylgir að vera með breytilega vexti á húsnæðislánum sínum. En þetta eru umtalsverðar breytingar og ég tel að nefndin þurfi að fara nokkuð gaumgæfilega ofan í þetta atriði.

Þá er kveðið á um lán til húsnæðissamvinnufélaga og er það vel að auka eigi hlut húsnæðissamvinnufélaga. Nefndarmenn munu óska eftir útskýringum á því af hverju eigi að vera hærra lánshlutfall til slíks húsnæðis og af hverju það eigi að vera til lengri tíma. Auðvitað eru ýmsar skiljanlegar ástæður fyrir því en þó má velta fyrir sér hvort það sé í samræmi við jafnræðisreglu. Þetta er eitthvað sem nefndin mun fara í.

Ég fagna mjög þeim ákvæðum sem hér eru til bráðabirgða um að veita einstaklingum lán til endurbóta eða viðbygginga á húseignum sínum. Ég velti samt fyrir mér af hverju það eigi eingöngu við um sameignir í fjöleignarhúsum því að ég held að þetta gæti verið mikilvægt fyrir fleiri tegundir húsnæðis þar sem fólk getur farið í tiltölulega smávægilegar aðgerðir sem gera því svo kleift að búa í núverandi húsnæði sínu. Eins held ég að tillögur um lánveitingar til fyrirtækja og opinberra aðila til að auka aðgengi fatlaðra séu mjög jákvæðar og til þess fallnar að auka mannréttindi fatlaðra og þeirra sem eru eitthvað hreyfihamlaðir. Jafnframt eru þetta vonandi atvinnuskapandi aðgerðir. Mér finnst koma til greina ef nefndin telur sig þurfa þó nokkra yfirlegu yfir þessu frumvarpi að hún geti tekið t.d. þetta ákvæði til bráðabirgða og unnið það nú þegar fyrir þinglok í sumar.

Varðandi þetta bráðabirgðaákvæði held ég samt að það sé umhugsunarefni að heimila allt að 100% veðsetningu. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins segir, frú forseti, að þetta geti haft áhrif á áhættu sjóðsins en engin greining hafi farið fram þannig að erfitt sé að meta breytingarnar hvað það varðar. Ég held að í ljósi þess að staða sjóðsins er mjög alvarleg um þessar mundir þurfi nefndin að gefa þessu góðan gaum.

Ég segi að lokum, frú forseti, að sem starfandi formaður félags- og tryggingamálanefndar mun ég tryggja að þetta frumvarp fari fljótt og vel til umsagnar og jafnvel reyna að freista þess að taka ákveðna þætti út úr frumvarpinu til þess að afgreiða þá nú þegar fyrir sumarið ef við treystum okkur ekki til þess að klára frumvarpið í heild sinni á svo skömmum tíma.