138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var eitt sem ég hjó eftir sem mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í.

Það kom fram í upphafi máls hv. þingmanns um séreignarstefnuna, sem hefur verið við lýði á Íslandi og við Íslendingar höfum verið þó nokkuð stoltir af og margar þjóðir horft til þess sem mikils kosts við íslenskt samfélag að svo mikill hluti íbúðarhúsnæðis sé í séreign, að hv. þingmaður sá hana sem mikinn ágalla, að þar hafi skapast einhvers konar vistarband fyrir fólk. Ég býst við að hv. þingmaður eigi við að fólk sé einhvern veginn þrælar húsnæðis síns, sem ég fæ reyndar ekki alveg skilið. Er mögulegt að hv. þingmaður sé að rugla séreignarstefnunni saman við lánaumhverfið á Íslandi þegar þær hörmungar sem urðu hérna haustið 2008 leiddu til þess að lán og greiðslubyrði hækkuðu mikið? Er mögulegt að hv. þingmaður sé að rugla þessu saman við séreignarstefnuna? Eða svona til vara: Hvað á hv. þingmaður við með því að séreignarstefnan hafi verið vistarband á okkur Íslendingum?