138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

húsnæðismál.

634. mál
[20:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál. Þar eru gerðar nokkrar breytingar á reglum um Íbúðalánasjóð, sem hér hafa verið reifaðar. Það hefur verið sagt að þetta sé í rauninni fráhvarf frá séreignarstefnunni. Sumir lofa það og prísa, þeir sem hafa alið einhvern aldur í Svíþjóð eða öðrum löndum þar sem slíkt er mikið við lýði. Hins vegar hef ég þá bjargföstu skoðun að séreignarstefnan sé af hinu góða. Hún leiðir til þess að fólk sér betur um eignir sínar og eykur auk þess eignamyndun hjá fólki sem gerir það sjálfstæðara og gerir það að sjálfstæðum borgurum umfram leiguliða.

Þó að ég sé ekkert hrifinn af því sem hér er lagt til fellst ég alveg á það. Nú eru sérstakar aðstæður og Íbúðalánasjóður hefur þurft að kaupa til sín fjöldann allan af íbúðum. Ég heyrði síðast að hann væri kominn með 700 íbúðir. Það er reyndar ekkert getið um það í frumvarpinu en ég held að það væri ástæða til að geta þess, að vegna þessara sérstöku aðstæðna þyrfti Íbúðalánasjóður að losna við þessar íbúðir með einhverjum hætti. Eitt af því gæti verið að leigja þær út með kauprétti, eins og hér er lagt til, og hins vegar að veita lán til húsnæðissamvinnufélaga sem gætu þá keypt íbúðirnar af Íbúðalánasjóði. Hér er verið að bregðast við þessum vanda.

Það sem ég ætlaði að koma örlítið inn á, er um lánskjör á síðu 2. Þar segir að Íbúðalánasjóður geti veitt lán, bæði óverðtryggð og verðtryggð með vísitölu neysluverðs, og bæði með föstum og breytilegum vöxtum, háð útboði. Þetta er töluvert mikil breyting frá því sem verið hefur. Varðandi umræðuna um verðtryggingu og óverðtryggð lán þá tel ég mjög æskilegt að taka upp óverðtryggð lán, og ég tel reyndar að það ætti að afnema verðtrygginguna eftir því sem nýir samningar eru gerðir. Ég vil benda á að ef menn ætla að taka upp óverðtryggð lán þá krefst það þess að menn taki upp miklu meiri aga í peningastjórnun svo hér myndist ekki verðbólga. Meginkrafan verður nefnilega að vera sú að óverðtryggðir vextir séu hærri en verðbólgan, að minnsta kosti til lengri tíma. Annars eru sparifjáreigendur og það fólk sem frestar neyslu að tapa. Það má ekki því þá myndast enginn sparnaður. Við upplifðum það í 30 ár, frá 1950–1980, að sífellt var verið að refsa sparifjáreigendum. Þeir hættu að vera til, fóru að eyða eins og hinir eða hreinlega dóu vegna aldurs. Nýir bættust ekki við vegna þess að fólk lærði það fljótt að það borgaði sig að skulda og að menn töpuðu á því að spara. Það leiddi til þeirrar hegðunar, sem ég held að enn sé til á Íslandi en hrunið hefur kannski læknað menn af, sem er óskaplega mikil eyðslugleði, ef ekki eyðslugræðgi, og lítill sparnaður. Það er m.a.s. ekki gert ráð fyrir því að fólk spari. Umræðan er þannig að það er ekki reiknað með því að nokkur maður spari. Auðvitað er ekki hægt að lána neina peninga nema þeir séu sparaðir fyrst.

Um leið og hér á að vera markaður með óverðtryggð lán, sem ég tel vera æskilegt, verða menn að gjöra svo vel að gæta sín á verðbólgunni. Verðbólguskot, eins og kom fyrir tæpu einu ári, 18%, hefði nefnilega þýtt 20% nafnvexti. Maður sem skuldaði 20 milljónir króna hefði þurft að borga 4 milljónir króna bara í vexti. Það er því rétt sem hæstv. ráðherra nefndi í framsögunni að verðtryggingin bjargaði heimilunum í gegnum þennan verðbólgukúf. Ótölulegur fjöldi íbúðareigenda hefði annars misst húsnæði sitt í verðbólguskotinu.

Varðandi ákvæði til bráðabirgða um að veita lán til byggingar lyftuhúss o.s.frv. umfram það hámark sem um er getið, þá er þetta dálítið ónákvæmt orðalag, frú forseti. Talað er um hámarksfjárhæð og þá veit maður ekki hvort átt er við 90 prósentin eða 18 milljónirnar sem Íbúðalánasjóðurinn lánar hæst. Hv. nefnd verður að skoða þetta sérstaklega og ég mun benda á þetta atriði. Auðvitað er stórhættulegt þegar menn eru komnir umfram 90% mörkin sérstaklega, ef átt er við það. Það kemur hvergi fram hvort átt sé við það, ég hef ekki getað séð það. Ef menn fara umfram 90% mörkin er stór hætta á því að Íbúðalánasjóður fari að tapa fé. Það er ekki til bóta í þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem hann býr við í dag, að hann tapi fé til viðbótar því að hafa eignast 700 íbúðir sem illmögulegt er að selja.