138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa.

646. mál
[21:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni merkt frumvarp. Það er ljóst að skuldavandi heimilanna er gríðarlegur. Frá því ég steig fæti inn í þessa stofnun í fyrsta skipti hef ég barist fyrir því að felldar verði niður einhverjar skuldir heimilanna til þess að gera þeim lífið léttara, hvort sem það eru húsnæðisskuldir eða aðrar skuldir í kjölfar þess forsendubrests sem varð hér haustið 2008. Ég ætla ekki að spyrja út í nauðsyn laganna sem hér eru lögð til, heldur annað.

Það er ljóst að einhvers staðar frá kemur fjármagnið vegna þess að eignarleigufyrirtækin voru flest öll fjármögnuð í erlendri mynt. Það var ekki eins og þau fjármögnuðu þetta með eigin fé þannig að gengisfallið varð ekki að hagnaði hjá þeim. Það er ljóst að þessi þrjú eða fjögur eignarleigufyrirtæki sem um ræðir þurfa að taka á sig skell sem nemur einhverjum milljörðum.

Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi fyrir mat á því hvað þessi skellur gæti orðið stór fyrir eignarleigufyrirtækin. Síðan verður mér óneitanlega hugsað til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, hvort það geti verið að brotið sé ákvæði á þessum eignarleigufyrirtækjum. Lítill fugl hvíslaði því að mér að ríkislögmaður hefði gefið álit á mögulegri skaðabótaskyldu vegna málsins og mig langar til að spyrja hvort hæstv. ráðherra gæti aðeins frætt okkur um það.