138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa.

646. mál
[21:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka greinargott svar og í mínum huga er það fullnægjandi. Það er alveg ljóst að sum eða öll þessi eignarleigufyrirtæki eru fjármögnuð af fjármálastofnunum sem fengu yfirfærslu á lánum úr gömlu bönkunum á mikilli niðurskrift, þannig að þarna eru innbyggðar einhvers konar afskriftir sem verið er að leiða út til þeirra sem tóku þessi ógæfulán, myntkörfulán.

Það gleður mig að hæstv. ráðherra skuli vísa þessu máli til efnahags- og skattanefndar vegna þess að ég á sæti þar og ég heiti því að ég mun vinna eins vel og ég get að því að málið komist fljótt og vel í gegn, en auðvitað með þeim fyrirvara að ég hef ekki kynnt mér algjörlega smáatriðin vegna þess að við vorum að fá þetta í hendurnar fyrir nokkrum klukkutímum.