138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa.

646. mál
[21:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í umræðu um 7. málið á dagskránni hélt ég smá ræðustúf um hraðann, þar var málið þannig að ég hafði ekki náð því að lesa það og það má segja um þetta mál líka. Ég ætla því ekkert að endurtaka það heldur vísa bara í þá ræðu. Þetta er ekki nógu sniðugt, ég hefði gjarnan viljað ræða þetta mál af dálítið meira viti en ég geri hér. Mér sýnist þó að meginbreytingin felist í 2. gr., um skilamálabreytingu, þar sem tekin er staða lánsins núna. Ég veit ekki hvernig á að fara með vanskil og annað slíkt, það er ekki gert ráð fyrir því eða ekki talað um það, ég hef a.m.k. ekki séð það. Það getur vel verið að það sé einhvers staðar. Staðan er tekin núna og þær eftirstöðvar sem eftir eru eru reiknaðar niður til þess dags sem lánið var tekið og síðan er framreiknað aftur til baka með verðtryggingu og 15% álagi sem er svona skiptiálag. Þetta þýðir það að fólk er búið að borga í eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár gengistryggða hlutann og þá umtalsvert mikið. Ég lagði til fyrir nokkru að farin yrði sú leið að allt lánið yrði reiknað til baka miðað við lántökudag og síðan yrði sett þetta skiptigjald sem ég var reyndar með bæði í krónutölu, kannski milljón krónur, og kannski einhverja prósentu og svo yrði það reiknað fram til dagsins í dag og áfram eins og verðtryggt lán og allar greiðslur inn á það sem hefðu verið greiddar yrðu teknar sem verðtryggt lán. Þetta kemur dálítið öðruvísi út og ég hugsa að hv. efnahags- og skattanefnd muni kanna þessar mismunandi leiðir.

Það er ljóst að fólk er búið að borga mjög mikið af þessum lánum og það sem er kannski verra og hefur lítið verið rætt í umræðunni er það að fyrirtækin sem veita þessi lán hafa með eða án heimildar hækkað vexti umtalsvert. Ég hef séð bílalán þar sem lánið var tekið á 4% vöxtum, ef ég man rétt, en var komið upp í 7–8% þegar verst lét ofan á jen og franka sem er náttúrulega óheyrilegt. En það hefur væntanlega verið gert með þeim rökum að viðkomandi fyrirtæki væri með slæmt lánshæfismat í útlöndum og fengi bara ekki lán og þyrfti því að sætta sig við mjög háa vexti. En ég vil benda á það að á innstæðureikningi í bönkunum eru 200 milljarðar í erlendri mynt sem bera nánast enga vexti. Ég held að það séu um 1–2% innlánsvextir á þeim reikningi. Þarna er því kominn óskaplega mikill vaxtamunur í sama landinu að innlánsvextir eru mjög lágir og útlánsvextir eru orðnir geysilega háir.

Þetta er svona meginmálið. En varðandi það hvort fyrirtækin sem eiga þessar kröfur tapi þá er ljóst, ef við lítum á skuldir á Íslandi með evruaugum eða einhverju slíku, að allar innstæður og annað slíkt hafa lækkað umtalsvert fyrir fjármagnseigendur sem höfðu sitt ekki á þurru — það er alltaf talað um að þeir hafi allt sitt á þurru — og töpuðu öllu sínu eins og hlutabréfaeigendur, stofnfjáreigendur og þeir sem áttu kröfur sem lækkuðu mikið í séreignarsjóðum og slíku. Skuldirnar hafa þá lækkað líka í erlendri mynt nema þær sem eru gengistryggðar, þær hafa haldið sínu. Og ef þeir aðilar sem áttu þessar kröfur eru erlendir og líta á þetta þeim augum hafa kröfurnar ekkert hækkað, en í augum Íslendinga með íslenskar krónur hafa þær náttúrlega hækkað stórlega og jafnvel tvöfaldast og það er sá vandi sem við glímum við. Þegar þessar kröfur voru færðar, alla vega hjá bönkunum, yfir til nýju bankanna voru þær fluttar með afskriftasjóði af því að menn reiknuðu með því að tapa töluverðum hluta af þessum kröfum og það er væntanlega sá afskriftasjóður sem menn ætla að nota í þessar afskriftir. Ég tel mjög brýnt að þessi vandi verði leystur þannig að ekki lendi allt of margir í vandræðum, því að það er engum hagur í því, hvorki lánveitendum né lántakendum, að menn lendi í uppboðum og öðru slíku sem er alltaf slæmt, það er alltaf langbest að menn geti borgað. Ég held þess vegna að þau úrræði sem menn hafa gripið til hingað til séu ágæt og þetta úrræði hér líka. Ég bendi á að menn eru búnir að borga bæði hækkandi vexti og af mjög hækkandi láni og það er ekki fyrr en nú sem skipt er yfir í verðtryggt sem sumum þykir slæmt líka. En ég benti á í ræðu rétt áðan, í síðasta máli, að verðtryggingin hefði kannski bjargað heimilunum frá stórum gjaldþrotum miðað við það ef ekki hefði verið verðtrygging og kröfurnar hefðu verið óverðtryggðar og sú krafa verið gerð að vextir yrðu aldrei lægri en verðbólgan, því að það getur varla verið meiningin að þeir sem fresta neyslu, gæta hagsýni og sparsemi og eiga innstæður eigi að fara að tapa, að það sé einhver regla. Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að horfast í augu við það að vextir gætu þá orðið gífurlega háir eins og ég nefndi áðan, 20% í 18% verðbólgu, sem mundi þýða það að mjög margir hefðu misst heimili sín í verðbólguskotinu sem varð. Það má því segja að verðtryggingin hafi bjargað fjölda heimila frá þeim örlögum.