138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

aðkoma forsætisráðherra að launamálum seðlabankastjóra.

[10:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þann 6. maí sl. komum við þrír hv. þingmenn hingað upp og spurðum hæstv. forsætisráðherra út í aðkomu hennar og ráðuneytis hennar að launamálum seðlabankastjóra. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Svo vil ég vísa því á bug sem hv. þingmaður segir hér og aðrir hafa verið að segja, sumir hafa verið með dylgjur um að ég hafi gefið einhver fyrirheit um laun til seðlabankastjóra. Það er ekki á mínu færi og ég vissi ekkert um að hann mundi fá einhver önnur laun en kjararáð ákvað í þessu efni. Ég hef haft samband við starfsfólk mitt í ráðuneytinu og það kannast enginn við að hafa gefið slíkt loforð.“

Í framhaldi af þessu óskaði ég eftir fundi í efnahags- og skattanefnd þar sem við færum yfir þessi mál. Á þeim fundum hefur komið í ljós að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands voru í miklum samskiptum um launakjör seðlabankastjóra. Til staðfestingar höfum við hér tölvubréf þeirra á milli ásamt tillögu úr Seðlabankanum sem formaður bankaráðsins bað um, um hvernig hægt væri að hækka laun seðlabankastjórans þannig að hann þyrfti ekki að draga umsókn sína til baka.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að það voru bullandi samskipti innan úr forsætisráðuneytinu um launakjör seðlabankastjóra hvort henni finnist þetta eðlileg stjórnsýsla og hvort henni finnist eðlilegt — vegna þess að ég trúi ekki að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt þinginu ósatt — að forsætisráðherra í forsætisráðuneytinu viti ekki um samskipti innan ráðuneytisins er tengjast jafnmikilvægu máli og launakjörum seðlabankastjóra, og í síðasta lagi hvort hæstv. forsætisráðherra finnist eðlilegt að menn véli um slík mál á bak við (Forseti hringir.) tjöldin.