138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

aðkoma forsætisráðherra að launamálum seðlabankastjóra.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu, Már Guðmundsson og Lára formaður bankaráðs hafa öll komið fyrir viðskiptanefnd og gert grein fyrir sínu máli. Í máli þeirra allra kom fram að ég hefði engin afskipti haft af þessu máli, engin loforð gefið og engin fyrirheit. Ráðuneytisstjóri minn upplýsti líka og sendi skriflega greinargerð inn í nefndina þess efnis að hún hefði engin loforð gefið í þessu efni, enda ekki á hennar færi. Lög og reglur gilda í þessu efni, um kjararáð, og það er alveg ljóst að hún hafði einungis milligöngu um að koma upplýsingum til Más Guðmundssonar sem formaður bankaráðs Seðlabankans hafði fengið í Seðlabankanum um launamálið. Það eru hennar einu afskipti af þessu máli.

Ég er að velta fyrir mér hvort þingmenn vilji virkilega hafa svona samskipti og áherslur í málum þegar kallað er eftir breytingum og nýjum tímum. (Forseti hringir.) Við erum í heilan mánuð búin að ræða þetta mál, allt hefur komið fram, (Gripið fram í.) það hefur allt verið skýrt (Gripið fram í.) og allt verið opið í því. (Forseti hringir.) Ég hef svarað öllum spurningum sannleikanum samkvæmt en ég hef ekki svarað því sem hv. þingmaður vill fá fram, að ég sé eitthvað sek (Forseti hringir.) í þessu máli og hafi leynt upplýsingum. Það hef ég ekki gert, það er alveg ljóst.