138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

launamál seðlabankastjóra.

[10:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi uppákoma sem við urðum vitni að er einhver aumasta smjörklípa sem ég hef orðið vitni að í þingsal. Hæstv. forsætisráðherra ber ábyrgð á pólitískri spillingu sem á sér stað varðandi launamál seðlabankastjóra, sem er auðvitað einhver helsti vildarvinur ríkisstjórnarinnar og hefur verið lengi. Nú liggur það fyrir að meiri hluti bankaráðsins hefur lagt til að seðlabankastjóranum verði greidd laun sem eru ekki í samræmi við ákvörðun kjararáðs.

Hæstv. forsætisráðherra segir að allt sé hreint og klárt. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir á Alþingi að forsætisráðuneytið hefði ekki haft neina aðkomu að þessu máli. En það er alveg ljóst, miðað við þá tölvupósta sem hér liggja fyrir, miðað við það sem fram kemur á forsíðu Morgunblaðsins í dag, að maður hefur gengið undir manns hönd í forsætisráðuneytinu af hálfu fulltrúa forsætisráðherra í (Forseti hringir.) bankaráðinu og innan efnahags- og skattanefndar, til að tryggja seðlabankastjóranum laun sem (Forseti hringir.) kjararáð hefur ekki fallist á. Og hæstv. forsætisráðherra getur ekki svarað þessum spurningum með einhverjum útúrsnúningum (Forseti hringir.) eins og hér áðan.