138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

samningar við kröfuhafa gamla Landsbankans og innstæðutryggingar.

[10:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina.

Forsaga málsins er sú að á síðasta ári náðust samningar um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Í tilfelli Arion banka og Íslandsbanka var farin sú leið að bankarnir eru í reynd, að vísu óbeint, í eigu þrotabúa gömlu bankanna. Í tilfelli Landsbankans er niðurstaðan önnur eins og menn þekkja. Sú leið sem farin var með Arion banka og Íslandsbanka þýddi að það þurfti ekki að fara út í að meta þær eignir sem færðar voru á milli, sem hefði verið mjög erfitt og jafnvel kallað á flækjur fyrir dómstólum. Þess þurfti ekki einfaldlega vegna þess að eigandinn er sá sami, bæði fyrir og eftir. Í tilfelli Landsbankans var þetta ekki hægt og þess vegna var ákveðið að taka ákveðnar eignir út fyrir sviga. Það voru þær eignir sem talið var einna erfiðast að meta. Þeim var haldið til hliðar. Síðan fer það eftir því hversu mikið kemur út úr þeim eignum hversu mikið þrotabú gamla Landsbankans og þar með kröfuhafar hans fá upp í kröfur sínar. Þetta er einfaldlega það sem samið var um.

Það var ósköp eðlilegt að þrotabú gamla Landsbankans færi fram á að fá að halda veðréttindum sínum í þeim kröfum, því að þær voru kröfur sem gamli Landsbankinn átti og hafði öll tök á. Síðan voru þær færðar út úr honum. Til að liðka fyrir því og til að ekki þyrfti að tilkynna hverjum og einasta skuldara um það sérstaklega, var ákveðið að fara þá leið sem frumvarpið, sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, auðveldar. Samningarnir eru ekki í uppnámi þótt lagafrumvarpið fari ekki í gegn, það mundi einfaldlega þýða að fara þyrfti mun lengri og kostnaðarsamari leið til þess að veðflutningurinn gengi eftir.