138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að það þarf að fara að skýra út hvernig við getum, vonandi í sameiningu, nýtt þá sjö þingdaga sem eftir eru. Hinn umræddi forgangslisti ríkisstjórnarinnar er náttúrlega ekki forgangslisti, hann er ágætur minnislisti um öll þau mál sem lögð hafa verið fram. En það er enginn forgangur, engin stefnumótun, engin forgangsröðun um þau mál sem brýn eru og mikilvægt er að við náum samstöðu um í þinginu að klára fyrir þinghlé og það eru þau mál sem snerta skuldavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Á dagskrá í dag eru ýmis mál og ég tek eftir því að þar er stjórnarfrumvarp um happdrætti. Mér finnst það ekki vera forgangsmál. Ég legg því til að umræddur fundur verði haldinn fyrr en síðar þannig að við getum farið að einhenda okkur í þessi verkefni. (Forseti hringir.) Síðan vildi ég spyrja hæstv. forseta hverju það sætir að atkvæðagreiðslu sem við vorum að ræða áðan á þingflokksformannafundi hafi verið frestað.