138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það verður ekki með sanngirni sagt að manni birtist miklir verkstjórnarhæfileikar þessa dagana hérna í þinginu. Ákvörðun sem tekin var kl. 10 í morgun var afturkölluð kl. 11. Á annað hundrað mál bíða núna afgreiðslu frá ríkisstjórninni og ekkert kemur fram frá hæstv. ríkisstjórn um hvaða mál eigi að vera hér í forgangi og hvaða mál geti beðið. Í annan stað er það þannig að það er liðið á þriðja mánuð frá síðasta degi sem menn gátu lagt fram frumvörp án þess að óska eftir afbrigðum og enn er verið að leggja fram frumvörp á þinginu þar sem kallað er eftir afbrigðum til þess að þau komist á dagskrá. Það er greinilega allt hér í hers höndum og algjör losarabragur á öllum þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þess vegna verður ætlast til þess að eigi síðar en í dag liggi fyrir einhver stefnumörkun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Við verðum að fá tækifæri til þess að vinna þessi mál eðlilega og almennilega. Það liggur auðvitað (Forseti hringir.) á ákveðnum málum, en önnur mál geta að skaðlausu beðið.