138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:20]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Þetta skipulagsleysi á þinginu virðist vera mikið og viðvarandi vandamál og er ekkert nýtt. Ég leyfi mér að benda á varðandi þetta að Hreyfingin hefur lagt fram frumvarp um svokallaðan þingmálahala, þ.e. að þau þingmál sem næst ekki að afgreiða á yfirstandandi þingi færist sjálfkrafa yfir á næsta þing og að ekki þurfi að endurflytja þau. Frumvarpið gerir líka ráð fyrir að það sé skylda nefnda að afgreiða mál úr nefndum innan tilskilins tíma. Slíkt mundi liðka mjög fyrir þingstörfum og gera þingið ábyrgara í afstöðu sinni því að þingmenn yrðu að greiða atkvæði um öll mál. Þetta frumvarp hefur enn ekki litið dagsins ljós á dagskrá.

Dagskrá þingsins í dag er hins vegar með slíkum ólíkindum að það er náttúrlega greinilegt að eitthvað miklu meira er að hér á Alþingi en bara skipulagsleysi. Ég leyfi mér að benda t.d. á þá atkvæðagreiðslu sem átti að fara hér fram, síðan stjórnlagaþingið og svo þingsályktunartillöguna um aðild að spillingarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er hægt að vera með (Forseti hringir.) fúlli brandara hér en þetta?