138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:24]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það vekur óneitanlega nokkra furðu að þeirri atkvæðagreiðslu sem boðuð var hafi verið frestað og það læðist að manni sá grunur að það sé vegna þess að það átti að kjósa hér um umdeilt máli í þinginu, svokallað Verne-mál, og að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni hafi ekki tekist að smala köttunum í hús til þess að greiða atkvæði með þessu máli. En við skulum sjá hvað setur kl. 3.

Vegna þeirra orða sem féllu hjá hæstv. forsætisráðherra um að hér hefðu margoft verið mörg mál til afgreiðslu á síðustu dögum þings veit ég ekki betur en að árið 2007 þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, sem gleymist nú iðulega, hafi verið gerð breyting á þingsköpum til að lengja sumarþingið til þess að koma í veg fyrir að 100 mál væru óafgreidd. Til viðbótar var tekin sú ákvörðun fyrir örfáum dögum að lengja þingið til 15. júní. Einu afleiðingarnar sem það hefur hjá þessari hæstv. ríkisstjórn er að menn ýta bara málunum stöðugt á undan sér og niðurstaðan er sú að hér er algjört uppnám. Ég sé ekki fram á annað en að það verði svo (Forseti hringir.) þegar þingi lýkur nú, virðulegi forseti, í sumar.