138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Máltækið segir: „Sínum augum lítur hver á silfrið.“ Hæstv. forsætisráðherra er greinilega mjög stoltur af verkstjórninni hér á Alþingi þegar það liggur fyrir samkvæmt málalista hæstv. ríkisstjórnar að 108 mál sem liggja fyrir þinginu eru óafgreidd. Í annan stað liggur það fyrir að nú eru liðnir meira en tveir mánuðir frá því að átti að leggja fram frumvörp til afgreiðslu á þinginu sem hægt væri að taka á dagskrá án þess að leita eftir afbrigðum. Við höfum reynt að greiða fyrir málum með því að veita slík afbrigði þegar það hefur átt við. Auk þess er hæstv. ráðherra greinilega mjög stoltur af því að ákvarðanir sem eru teknar kl. 10 á morgnana séu afturkallaðar kl. 11. Þetta telur hæstv. ráðherra til marks um þá miklu festu og miklu verkstjórnarhæfileika sem birtast okkur hér í þingsölum.

Að lokum varðandi það sem hæstv. forseti sagði hér áðan. Ég fór fram og athugaði, það eru 45 þingmenn í húsi, það er ekki nein afsökun fyrir því að fresta þessum atkvæðagreiðslum af þeim ástæðum. Það kunna að vera einhverjar aðrar ástæður sem ég ekki þekki til, það kann að vera að menn séu minnugir orðanna að (Forseti hringir.) frestur sé á illu bestur og það bögglist eitthvað fyrir ríkisstjórninni að taka fyrir það mál sem lýtur að Verne Holdings, það mál sé eitthvað feimnismál sem menn (Forseti hringir.) reyna að ýta á undan sér. Við höfum séð að menn hafa ýtt því á undan sér undanfarna daga og núna klukkutíma fyrir klukkutíma (Forseti hringir.) til viðbótar.