138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að þessi atkvæðagreiðslufrestun situr aðeins í mér. Skýringar hæstv. forseta um að hér hafi ekki verið nægilega margir þingmenn í húsi gengur ekki upp. Það getur verið að það hafi ekki verið nægilega margir stjórnarliðar í húsi, það getur verið að það hafi ekki verið meiri hluti fyrir því máli sem ríkisstjórnin var að leggja til að yrði greitt atkvæði um. En það er ekki rétt hjá hæstv. forseta að segja að það hafi ekki verið nægilega margir þingmenn í húsi vegna þess að það lá fyrir að það var rúmlega helmingur þingmanna. Hér segir í 64. gr. þingskapa, með leyfi forseta:

„Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslunni, sbr. 53. gr. stjórnarskrárinnar.“

Það er ekki skýring sem ég tel hæstv. forseta sæma vegna þess að hún er röng.