138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Róberti Marshall og Guðbjarti Hannessyni þegar þeir segja að þingið eigi að ráða för. En hvaða meiningar eru það þá að breyta dagskrá sem var ákveðin fyrir klukkutíma síðan? Er réttur hv. þingmanna enginn til að standa upp og gera athugasemdir við slík vinnubrögð? Ég held að það sé aldeilis þannig og við höfum þennan lið til þess. Það er full ástæða til að gera athugasemdir við svona vinnubrögð. Auðvitað á þingið að stjórna. Meiri hluti þingmanna var tilbúinn til þess að taka við stjórn í þessu þingi. Það var alveg nægur fjöldi til þess en það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að breyta dagskrá þingsins, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, og engra annarra.

Ég vil segja við hv. þingmenn Hreyfingarinnar að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga tel ég að sem alþingismaður eigi ég fullt erindi við kjósendur. Mörg málefni sveitarstjórna og landsmála skarast. Við þingmenn eigum fullt erindi við kjósendur í þessu landi, alla vega tel ég það, þó að þingmenn Hreyfingarinnar (Forseti hringir.) séu ekki sammála því. Mér er alveg sama þó að þingið (Forseti hringir.) framlengist um eina til tvær vikur vegna þeirrar vinnu.