138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir með hv. þm. Þuríði Backman að við eigum að sameinast um að afgreiða þau mál sem við erum sammála og sátt um og ekki ríkir mikill ágreiningur um. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. forseta og forustumenn í þingflokkunum til þess að setjast niður sem fyrst til þess að koma skikki á þetta. Mín skoðun er sú að tíminn sem fer í umræðu um fundarstjórn forseta sé ekki vel nýttur.

Ástæða þess að ég kom hingað upp er kannski fyrst og fremst sú — ég gerði það líka fyrir viku síðan og er þó mjög seinþreyttur upp í þessum lið — að ég lagði fram skriflega fyrirspurn fyrir tæpum mánuði síðan sem mér hefur ekki borist svar við. Samkvæmt þingsköpum á mér að hafa borist svar eftir tíu virka daga og því vil ég spyrja hvort hæstv. forseti geti upplýst mig um hvort ég geti átt von á að þessari fyrirspurn verði svarað eins og þingsköp gera ráð fyrir.