138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég svara síðustu spurningu hv. þm. Péturs Blöndals, skýrsla Ríkisendurskoðunar er rædd í hv. fjárlaganefnd, þar er farið yfir hana og reynt að bregðast við henni.

Ég gerði þetta sérstaklega að umtalsefni í ræðu minni hér áðan til að draga fram þær staðreyndir sem koma fram í þessum ábendingum frá Ríkisendurskoðun um agaleysi í fjármálum ríkisins. Eins og ég sagði áðan þá er þetta ekki að byrja í dag og ekki hægt að kenna núverandi ríkisstjórn um, þetta hefur verið landlægur vandi í kerfinu.

Hv. þingmaður spyr mig hvernig vinna fari fram í fjárlaganefnd. Vinnan og samstaðan í fjárlaganefnd er mjög góð, ég upplifi það þannig. Þegar við stjórnarandstöðuþingmenn köllum eftir gögnum og öðru höfum við fengið þau inn á borð til okkar. Allir sem við viljum að verði kallaðir fyrir nefndina þegar verið er að fjalla um einstök mál eru nærri því undantekningarlaust látnir koma fyrir nefndina, alla vega þeir sem ég hef beðið um að komi. Svo geta aðrir haft aðrar skoðanir á því.

Í ræðu minni kom ég líka inn á það að hv. fjárlaganefnd vantar sterkari vopn. Þess vegna vakti ég athygli á því að við lögðum saman fram nefndartillögu og tilgangur hennar var sá að fjárlaganefnd gæti haft betri yfirsýn og styrkari stöðu til að styrkja starf nefndarinnar. Tillagan var komin hér á dagskrá í lok janúar og ég átti að mæla fyrir henni sem 1. flutningsmaður en henni var kippt út af dagskrá. Ég hef aldrei fengið viðhlítandi svör við því og þar er kannski líka við mig sjálfan að sakast vegna þess að ég hef ekki leitað mjög stíft eftir því. Ég hélt að hún kæmi inn en hana hefur dagað uppi og gæti verið að framkvæmdarvaldið hafi gripið þar inn í til þess að hleypa ekki löggjafarvaldinu alveg inn á borðið og til að geta fylgst nógu vel með því.