138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var kjörinn á þing fyrir 15 árum, það er kannski orðinn fulllangur tími, ég skal ekki segja til um það. En allan þann tíma hef ég einmitt haft áhyggjur af því sama og hv. þingmaður, að það er ákveðið agaleysi í ríkisfjármálum og það virðist vera óháð ríkisstjórnum. Það virðist vera að ríkisvaldið sjálft vilji ekki hafa aga, það vilji ekki hafa yfir sér það agavald að geta ekki hegðað sér eins og það hefur gert í gegnum tíðina.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann að krafan um upplýsingar sé nægileg ef menn fara engu að síður ekki eftir lögunum? Hefur nefndin t.d. kallað fyrir sig þá opinberu starfsmenn sem sannarlega hafa tekið sér fjárveitingavald — frá Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið samkvæmt stjórnarskrá — með því að fara út í framkvæmdir sem ekki var fjárveiting fyrir? Hefur nefndin kallað slíka aðila fyrir og veitt þeim ákúrur fyrir að hafa ekki staðið við fjárlög, sem eru lög frá Alþingi og fyrir að hafa eytt fjármunum úr kassa ríkissjóðs án þess að hafa til þess heimild í lögum, sem er bannað samkvæmt stjórnarskrá? Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki að þörf sé á enn ríkari áherslum frá nefndinni vegna þess að hún stendur vörð um agann og ráðdeildina í ríkisrekstrinum sem hefur svo smitandi áhrif úti um allt?