138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við deilum áhyggjum af þessu með fjárlagaferlið og eftirlitið. Innan fjárlaganefndar hefur verið settur niður hópur þar sem við ætlum að vinna að þessu. Því miður hefur hann ekki haft mikinn tíma enn sem komið er. Vonandi nýtast sumarið og haustið til að bæta þar úr. Einn af göllunum við fjárlagaferlið og fjárreiðulögin er að það er ákveðin gildra í því að það er engin heimild til að ráðstafa fjármunum nema í gegnum Alþingi. Það eru afar skýr ákvæði um fjáraukalögin þannig að það þarf að beita einhverjum kúnstum þegar menn þurfa að grípa inn í eins og eitt stykki Eyjafjallajökulsgos eða annað slíkt. Við höfum verið sammála um það í fjárlaganefnd að þarna þurfi að verða breyting á. Við þurfum að sækja okkur fyrirmyndir erlendis frá um hvernig eigi að ganga frá hlutum þannig að framkvæmdarvaldið á hverjum tíma hafi möguleika á að grípa inn í óvæntar uppákomur og hafi til þess heimildir án þess að þurfa að bíða fjárlaga næsta árs. Varðandi lokafjárlögin og fjáraukalögin er þetta einmitt það sem við þurfum að laga.

Það sem mig langaði til að vekja athygli á er ósamræmi varðandi launagreiðslur. Það er mjög mikilvægt að við tökum það upp í fjárlaganefnd, einmitt þegar við ræðum um hvernig við ætlum að bregðast við hallanum sem við verðum að bregðast við. Hann er núna u.þ.b. 300 millj. kr. á dag ef við stöndum fjárlög. Það kom í ljós þegar menn brugðust við og fóru að skera niður launagreiðslur að eftir kjarasamninga hefur verið búið mjög ólíkt um á vinnustöðum hjá ríkinu. Sumir höfðu tekið yfirvinnu inn í grunnlaunin, aðrir höfðu haldið henni utan við og svo var ráðist á yfirvinnuna þannig að mikið ósamræmi er á milli fyrirtækja í dag í opinbera geiranum. Þetta þarf örugglega að laga með haustinu.

Í síðasta lagi er ástæða til að taka undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að auðvitað þarf að festa þær reglur sem hefur verið talað um og er unnið eftir með 4% og 10%, þ.e. (Forseti hringir.) að menn megi færa yfir áramót 4% en safna upp að hámarki 10% á inneignum.