138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir það sem hv. þingmaður sagði um að launamál ríkisins væru mjög ógegnsæ. Hv. fjárlaganefnd sendi einmitt í fyrrahaust beiðni til allra stofnana sem eru fyrir utan A-hluta og kallaði eftir þeirri hagræðingu sem hafði átt sér stað innan þeirra stofnana, þ.e. þá með lækkun launa eða að fella brott bifreiðahlunnindi og þar fram eftir götunum. Hv. fjárlaganefnd er klárlega að vinna í því og kallar eftir þessum upplýsingum til að reyna að sýna aðhald. Auðvitað vitum við að ef forstöðumenn stofnana vita að fylgst er með þeim eru meiri líkur en minni á að þar verði aðhald.

Í þessari umræðu, virðulegi forseti, er enginn ágreiningur, a.m.k. ekki pólitískur milli mín og hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, um að við þessum vandamálum verður að bregðast. En þá verðum við líka að fá framkvæmdarvaldið í lið með okkur til að það verði við þeirri beiðni en taki ekki þessa þingsályktunartillögu okkar og hendi henni undir stól þegar við viljum auka vægi og byggja upp sterkari nefnd.

Ég vil segja í lokin að þó að ég geri ekki lítið úr því sem búið er að gera er heilmikið verk fram undan og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla hv. þingmenn að gera sér grein fyrir því.

Hér er ég með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem barst okkur 9. mars. Það eru ekki nema þrír mánuðir síðan. Þar stendur, virðulegi forseti, svo ég fái að vitna í skýrsluna:

„Almennt er viðurkennt að svona brotakennd ákvarðanataka um fjármál hins opinbera dragi mjög úr yfirsýn og aga við fjárlagagerð.“

Þetta er niðurstaða Ríkisendurskoðunar. Síðan segir í lokasetningum Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar hefur lítið sem ekkert þokast áfram við að taka á þeim vandamálum sem hér er um fjallað. Svör stjórnvalda um hvernig gangi að hrinda umbótum í framkvæmd sem birt eru í seinni skýrslunni hljóða almennt á þá leið að málið sé enn þá í skoðun.“

Það er þá í höndum okkar, hv. þingmanna, (Forseti hringir.) að málin verði ekki lengur í skoðun heldur verði framkvæmd.