138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem í andsvar til þess að eiga orðastað við hv. þm. Höskuld Þórhallsson þar sem ég hef haft afar takmörkuð tækifæri til þess í fjárlaganefndinni. Við fjölluðum ítarlega um lokafjárlögin og getum deilt þeirri skoðun sem hefur komið fram áður í dag að þau bárust allt of seint. Þau þurfa að vera hluti af fjárlagaferlinu og þar þurfa menn því að bretta upp ermar og vinna miklu betur, hvort sem er hjá Fjársýslunni eða fjármálaráðuneytinu. Það breytir ekki því að mjög ítarlega hefur verið farið yfir lokafjárlögin og það er áríðandi að benda á fjárreiðulögin sem fara með skýrri lagagrein yfir það hvert hlutverk lokafjárlaga er, þ.e. eingöngu að staðfesta tölurnar úr ríkisreikningi.

Þess vegna sagði ég það í fyrri umræðu, sem hv. þingmaður hafði ekki tækifæri til að hlusta á, að þau gagnrýnisatriði sem komu frá minni hlutanum eru að sjálfsögðu áfram til skoðunar og umfjöllunar í fjárlaganefnd og á öðrum stöðum í kerfinu sem heyra ekki undir fjárlaganefnd. Það er engan bilbug að finna á mönnum um að skoða hvað gerðist í Seðlabankanum. Það er heil rannsóknarnefnd að störfum í þinginu sem á einmitt að fjalla um skýrsluna og þann stóra kafla sem þar er um Seðlabankann og því var ekki talin ástæða til þess að blanda þessu tvennu saman.

Ég biðst líka undan því sem kom fram í ræðunni og enn þá er talað um í sambandi við Icesave-deiluna og fjárlaganefnd að það hafi verið einhver leyndarskjöl og að menn hafi ekki kallað eftir gögnum. Ég ætla að segja það einu sinni enn að við afléttum leynd af fullt af gögnum án heimilda í fjárlaganefndinni, við kölluðum eftir og birtum allt það sem beðið var um. Ef menn ætla að sakast við einhverja held ég að réttast væri að menn ásökuðu ekki fjárlaganefndina, vegna þess að við tókum strax upp þau vinnubrögð að leggja öll gögn á borðið. Við gerðum það eins ítarlega og mögulegt var og eins fljótt og við fengum þau. Þannig er það enn þá, gögn sem berast fjárlaganefnd berast til fjárlaganefndarmanna um leið (Forseti hringir.) og ég fæ þau, að ósk minni í gegnum starfsmenn sem þar eru, enda tel ég að menn eigi að geta unnið að þessum málum (Forseti hringir.) með hreinar og klárar upplýsingar.