138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður staðfestir að engar athugasemdir séu við tölurnar í ríkisreikningi og ítreka það sem ég hef sagt áður að þó að við frestum lokafjárlögum breytist ekkert í þeim efnum. Það liggur því fyrir að óhætt er að afgreiða lokafjárlögin. Í sjálfu sér er enginn ágreiningur um það, fleiri hundruð blaðsíðna hafa verið lögð fram og farið hefur verið yfir þær í fjárlaganefnd þannig að það er allt skýrt.

Varðandi hitt atriðið, af því að við ræðum enn um Icesave, heiti ég á hv. þm. Höskuld Þórhallsson að koma nú með lista yfir öll þau gögn sem hann þurfti að bíða eftir, um það hvar leyndin átti sér stað. Annars lýsi ég orð hans um einhverja leyndarhyggju ómerk sem búið er að endurtaka margsinnis. Við erum búin að finna þrjú eða fjögur skjöl í öllu Icesave-ferlinu.

Þegar gögnin komu fram 5. júní á sínum tíma, en þá var tillaga lögð fram um samninga, þagði ég í heilan mánuð, ólíkt ýmsum öðrum þingmönnum, vegna þess að ég vissi alltaf, og það kom fram í þinginu, að gögnin ættu að koma fram með tillögu inn í þingið eins fljótt og auðið væri. Þá komu samningarnir allir á íslensku, þeir voru allir lagðir fram í fjárlaganefnd og á þinginu á fleiri tugum og hundruðum blaðsíðna. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að tala um og ég biðst undan því að hann haldi áfram að dylgja um þessa hluti heldur leggi frekar fram þennan lista formlega, annars lýsi ég þessi orð ómerk.