138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja menn að halda aðeins ró sinni. (GuðbH: Ekki þegar logið er upp á fólk.) Við erum að ræða lokafjárlögin og ég nefndi sem dæmi að pottur væri brotinn við framkvæmdina á því hvernig við fórum í gegnum Icesave-lögin. Ég get tekið sem dæmi að lögfræðiálit frá Mishcon de Reya var stungið undir stól í fjármálaráðuneytinu og það þurfti mikla og harða baráttu til að fá það skjal fram. Hvað með viðaukasamninginn við Icesave-samninginn sjálfan þar sem var að finna ákvæði um hvorki meira né minna en að Bretar og Hollendingar fengju forgang til jafns við Íslendinga þegar greitt yrði úr þrotabúi Landsbankans? (GuðbH: Komdu með listann.) Við erum að tala um hagsmuni upp á tugi ef ekki hundruð milljarða. Hvað með leynimöppuna sem var uppi á nefndasviði, læst inni í hirslum eins ritaranna? Af hverju var hún ekki gerð opinber? Þurfti þjóðin ekki að fá að vita alla málavöxtu? Ég held að þessi listi liggi algjörlega skýr fyrir.

Það getur vel verið að hv. formanni fjárlaganefndar sárni að ég muni ekki láta af gagnrýni minni á óvönduð vinnubrögð. Ég skal taka fram að mér finnst margt gott vera að gerast og mér finnst hv. formaður fjárlaganefndar — þó að hann gagnrýni mig nú — hafa leitt þá vinnu ágætlega og margt jákvætt er á seyði. Ég er þó ekki reiðubúinn að láta af þeirri gagnrýni fyrr en ég sé breytingarnar eiga sér stað. Við erum búin að ræða það, eins og ég benti á í upphafi ræðu minnar, (Forseti hringir.) í mörg ár að breyta ferlinu varðandi fjárlagagerðina (Forseti hringir.) en enn á ný er settur af stað einhvers konar ríkisfjárlagahópur sem er að mínu mati ekki (Forseti hringir.) tilraun til breyttra vinnubragða.