138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:08]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Stundum virðist mér mannskepnan eiga erfitt með að læra af mistökum. Þegar bankarnir voru einkavæddir voru gerð mörg mistök. Það liggur fyrir, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur einnig fram að einn aðaleigandi Landsbanka Íslands, Björgólfur Thor Björgólfsson, og félög tengd honum voru stærstu skuldarar bankans þegar bankinn féll. Við vitum að bankarnir voru rændir innan frá, mergsognir þar til ekkert var eftir nema skuldir sem almenningur á Íslandi þarf að greiða næstu áratugina.

Við vitum líka að síðast þegar ríkið samdi við Björgólf Thor um að koma með erlent fjármagn inn í landið tók hann lán fyrir því í Búnaðarbankanum. Engu að síður virðist Alþingi ætla að samþykkja að veita hæstv. iðnaðarráðherra heimild til að semja við þennan mann á nýjan leik.

Frú forseti. Er ekki mál að linni? Það er ekki hægt að endurreisa Ísland úr fúnum spýtum. Ég kalla eftir nýjum vinnubrögðum og siðferðislegri forustu Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)