138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við göngum hér ekki til atkvæða um það hvort við viljum fá gagnaver í Suðurnesin eða styðjum atvinnuuppbyggingu heldur greiðum við hér atkvæði um ívilnunarsamning, samning sem menn hafa kannski með réttu stært sig af að sé miklu minni að verðgildi en samningar sem áður hafa verið gerðir. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt í þessari stóru fjárfestingu að slíkir samningar séu gerðir, ekki síst í ljósi þess að önnur fyrirtæki virðast treysta sér til að fara í uppbyggingu hér. Auk þess hefur það margoft komið fram að einn af eigendum þessa „apparats“ eða jafnvel fleiri í málsmeðferðinni eru þess eðlis að við hljótum að hugsa okkur um hvort við séum tilbúin í að slíkir aðilar séu leiðtogar í uppbyggingu atvinnulífsins hér á ný. Ég get því miður ekki stutt þennan ívilnunarsamning en ég styð atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi hjartanlega og þá aðferðafræði að við gerum einhverja samninga yfir heildina sem allir geta gengið að. Ég held að það sé mjög skynsamlegt. (Forseti hringir.) Ég sit því hjá við þessa atkvæðagreiðslu.