138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:33]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort er sorglegra, atvinnuástandið á Íslandi eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, svo að þegar ríkisstjórnin kemur með einhverjar tillögur til að bæta ástandið blóðlangar mann til að taka undir og vera með. Að vísu renna á mig tvær grímur þegar Samfylking og Sjálfstæðisflokkur verða sammála um einhver mál [Hlátur í þingsal.] því að þá er oft hætta á ferðum.

Í sambandi við siðferðið sem mörgum hefur orðið tíðrætt um í sambandi við þetta mál þá er ég alveg reiðubúinn til að slá af siðferðislegum kröfum mínum og vera sveigjanlegur og greiða fyrir því að viðskipti geti átt sér stað við menn með vafasama viðskiptasögu. En að láta sama aðilann plata sig tvisvar, það er ég ekki til í. Það síðasta sem Reykjanes vantar er að fá þennan aðila yfir sig. Við skulum fyrst klára að borga skuldirnar sem (Forseti hringir.) kaup hans á Landsbankanum ollu okkur. Ég segi nei.