138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt og mikið og flókið mál sem verið er að greiða atkvæði um. Ég tek ekki undir með þeim sem hafa gagnrýnt störf formanns iðnaðarnefndar í þessu máli, ef einhverjir hafa gert það. Ég held að þar hafi menn lagt verulega að sér til að ná þessu máli farsællega í gegn. Ég verð hins vegar að viðurkenna að allan tímann hafa togast, eins og ég hef lýst, tvö sjónarmið á í manni varðandi þetta. Annars vegar það að öll viljum við að sjálfsögðu koma af stað atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi og Suðurnesjum. Öll viljum við að hér rísi gagnaver. Við sjáum tækifærin í því. En ég verð að viðurkenna að aðkoma Björgólfs Thors Björgólfssonar og fyrirtækis hans að málinu situr mjög þungt í mér og mörgum þingmönnum. Ég skil ekki, frú forseti, að ef þeir aðilar sem að því standa hafa svo mikinn hug á að endurgreiða samfélaginu það tjón sem þeir hafa valdið því, að þeir skuli ekki segja sig frá þessu verkefni. Ég skil það ekki.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég vil atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, eins og alls staðar á landinu, en ég treysti mér ekki í þetta. Ég greiði því ekki atkvæði.