138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lengd þingfundar.

[15:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það eru annasamir tímar fram undan hjá okkur í þinginu og ekki neitt óeðlilegt við það þó að farið sé fram á lengri þingfundi en venja er. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemd við það. Það sem ég geri athugasemd við, og kalla eftir, er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, forgangsröðun í seinustu þingvikunni sem fyrirhuguð er. Það eru sjö þingdagar eftir og við vitum ekki enn þá hvaða mál á að leggja áherslu á. Við leggjum áherslu á að þau mál verði tekin fram fyrir sem snúa að skuldavanda heimilanna, skuldavanda fyrirtækjanna í landinu og atvinnuuppbyggingu. Ég vil koma því sjónarmiði á framfæri þó að ég geri ekki athugasemd við það að þingfundur standi lengur en áætlað er.