138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lengd þingfundar.

[15:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði. Ég vil bæta því við að við sátum á þingflokksfundum fyrr í dag og á þingflokksfundi framsóknarmanna óskuðum við sérstaklega eftir því að fá upplýsingar um hvaða mál ríkisstjórnin hefði í forgangi. Það var upplýst að ríkisstjórnin eða formenn ríkisstjórnarflokkanna vilji ekki aflétta trúnaði af því hvaða mál séu í forgangi. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt því að ég man ekki eftir að það standi neins staðar í þingsköpunum — það er kannski hægt að benda mér á það — að formenn stjórnmálaflokkanna megi halda því algjörlega innan síns þrönga hóps hvaða mál eigi að vera afgreidd hér. Ég veit ekki betur en að ég hafi atkvæðisrétt hérna (BirgJ: Heyr, heyr.) eins og aðrir hv. þingmenn og við hljótum að hafa eitthvað um það að segja hvaða mál eru sett í forgang á (Forseti hringir.) þinginu.