138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[15:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Eigum við ekki að bíða eftir því að (Forseti hringir.) fólk ákveði sig hvort það ætlar að vera eða ekki?

(Forseti (ÞBack): Það er einn fundur í gangi. Ég bið um hljóð í salnum.)

Virðulegur forseti. Við ræðum hér lokafjárlög ársins 2008 — ekki að það sé hægt að hafa mikil áhrif á þetta mál. Málið er athyglisvert í hagsögulegu tilliti, en nú liggur fyrir að endanlegur halli á ríkissjóði árið 2008 er um 198,5 milljarðar kr. — gríðarleg upphæð það. Það er athyglisvert að skoða hvað liggur að baki hallanum. Má vera að ríkissjóður hafi verið rekinn svona illa? Voru áætlanir svona slakar, eða hvað var það sem leiddi til þessa gríðarlega halla?

Það er skemmst frá því að segja að árið 2008 varð hið svokallaða bankahrun og það hafði gríðarlega mikil áhrif á fjármál ríkisins. Ríkissjóður, án tveggja liða sem ég mun fjalla um sérstaklega á eftir, var rekinn með afgangi þetta ár upp á 30 milljarða, sem verður að teljast þó nokkuð góð frammistaða. Vegna bankaáfallsins leiddu tveir liðir hallann upp í 198,5 milljarða. Í fyrsta lagi hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs um 35 milljarða, sem kemur fram í auknum halla. Þetta var ekki hægt að sjá fyrir í lok árs 2007 þegar fjárlagafrumvarp afgreitt, heldur var þetta óvæntur liður sem kom fram vegna bankahrunsins.

Ef maður hugsar aðeins um þessa upphæð, 35 milljarða kr., er ekki víst að allt sé eins og lítur út fyrir við fyrstu sýn. Við vitum að lífeyrissjóðirnir og Lífeyrissjóður ríkisins skrá eignir sínar á markaðsverði. Markaðsverð eigna hrapaði gríðarlega 2008, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar annars staðar í heiminum. Hlutabréfamarkaðir hröpuðu og virði skuldabréfa og annarra slíkra pappíra minnkaði.

Það var náttúrlega ljóst að eignir lífeyrissjóðanna hjörnuðu dálítið við á árinu 2009 og jafnvel líka á árinu 2010, kannski sérstaklega á árinu 2010, þannig að eitthvað af þessu 35 milljarða tapi kom til baka. Spurningin er því hvort rétt sé að bóka þetta mikinn halla á ári vegna lífeyrisskuldbindinganna. Spyr sá sem ekki veit.

Þetta leiðir jafnframt hugann að því vandamáli sem felst í að skrá eignir á markaðsvirði í efnahagsreikningi, bæði fyrirtækja og lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Markaðsverðið sveiflast og þegar óvæntir skellir koma, eins og komu árið 2008, hrynur það. Áhrifin á efnahagsreikning verða því til skamms tíma mjög mikil, jafnvel mun meiri en þau eru til langs tíma, vegna þess að yfirleitt jafna markaðir sig.

Það er óneitanlega ekki hægt að líta fram hjá því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti eignir sem eru orðnar algjörlega verðlausar í dag. Þar ber helst að nefna skuldabréf í bönkunum sem voru ótryggð, auk fyrirtækjaskuldabréfa fyrirtækja sem nú heyra sögunni til eða eru í gjaldþrotaskiptum.

Stærsti liðurinn sem orsakaði þennan mikla halla árið 2008 og kemur fram í lokafjárlögum fyrir árið, voru afskriftir sem mátti rekja til taps sem varð í Seðlabanka Íslands. Þessar afskriftir námu 175 milljörðum kr. og munar um minna.

Það er kannski rétt að fara aðeins yfir hvernig afskriftirnar komu til og hvernig þetta tap kom til.

Í fjármálakrísunni sem ríkt hefur í heiminum og sér vart fyrir endann á enn þá, að minnsta kosti ekki hjá okkur, tóku þjóðir heims á það ráð að setja gríðarlega mikla fjármuni í fjármálakerfi landa sinna. Þetta var gert í þeirri von að bjarga fyrirtækjum frá falli, vegna þess að samfélagsleg áhrif þess þegar fjármálakerfi fellur eru slík að það er flest til vinnandi að reyna að stöðva fallið. Það var m.a. gert með því að spýta inn miklum peningum í hagkerfi landanna.

Þetta var gert þó nokkuð öðruvísi á Íslandi. Þar var það gert með því að auka mjög laust fé. Það var gert í gegnum endurhverf viðskipti í Seðlabanka Íslands. Hvernig var staðið að því? Jú, í endurhverfum viðskiptum eru settir fram pappírar sem mynda einhvers konar veðandlag við þá fjármuni sem Seðlabanki lánar síðan fjármálastofnunum til skamms tíma, til viku. Það sem gerðist á Íslandi var að fjármálastofnanir fóru að gefa út sérstaklega ótryggð skuldabréf, og notuðu síðan milliliði til að fara með þau í endurhverf viðskipti í Seðlabanka Íslands. Þetta voru hin svokölluðu ástarbréf. Eins og ég sagði áðan var það okkar leið til að auka laust fé í umferð í fjármálakrísunni.

Nú hafa margir talið að hér hafi verið um mikil afglöp að ræða og sagt að þetta hafi verið gríðarlega mikil mistök. Þetta hafi verið ógagnsætt og menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að gera. Ég hafna þeirri skýringu. Ég held að menn hafi fullkomlega gert sér grein fyrir því að með því að líða þetta athæfi og með því að samþykkja það, hafi menn séð leið til að auka laust fé, en héldu sig kannski vera með það undir betra eftirliti en reyndist vera og auðveldara væri að vinda ofan af því en síðar reyndist raunin.

Vorið 2008 setti Seðlabankinn fram minnisblað þar sem sagði eitthvað á þá leið að Seðlabankinn ætlaði sér að minnka þessi viðskipti, hvort það var á 10 eða 14 dögum, ég man það ekki nákvæmlega. Hann mundi gera það með því að krefjast þess að þekjan í andlagi þessara endurhverfu viðskipta, yrði lækkuð úr 98%, að mig minnir, niður í 50%. Með því var augljóst að undið væri ofan af þeim viðskiptum. Fjármálafyrirtækin mótmæltu þessu harðlega og bentu á þá augljósu staðreynd að ef yrði tekið svona mikið fé út úr íslenska fjármálakerfinu gæti það jafnvel riðað til falls. Það átti misvel við fjármálastofnanir, en að einhverju leyti átti það við þær allar. Seðlabankinn hvarf frá þessum ætlunum sínum, en boðaði aftur á móti að reglur yrðu hertar með haustinu og tækju smám saman gildi.

Við fall bankanna var ljóst að Seðlabankinn hafði misst veðandlagið. Þau skuldabréf sem Seðlabankinn sat uppi með, breyttust í almennar kröfur í bönkunum. Nú er það svo að þessi upphæð, 345 milljarðar, að eitthvað af henni mun fást til baka. Til að mynda er talið að yfir 30% muni fást til baka í bæði Kaupþingi og Glitnis-þrotabúunum, og endurheimtuhlutfallið hefur farið hækkandi. Í Landsbankanum horfir málið hins vegar öðruvísi við, vegna þess að forgangskröfur eru svo stór hluti af kröfum í þrotabú Landsbankans, vegna hinna svokölluðu Icesave-reikninga. Ef Icesave-reikningarnir ná því að vera í forgangi, sem vonir standa alla vega til, mun sáralítið fást upp í almennar kröfur, eða í kringum 5%.

Spekúlantar hafa nú samt verið að veðja á að verðmæti þessara bréfa fari hækkandi í öllum bönkunum. Það er væntanlega vegna þess að eignasöfnin á bak við þessar eignir líta út fyrir að vera betri en kannski upphaflega var áætlað. Jafnframt breyta ýmsar stjórnvaldsaðgerðir verðmæti eigna, eins og sú sem við förum nú með í gegnum hið háa Alþingi, um að breyta forgangsröðun á kröfum, til að mynda í Landsbankanum. Bréfið svokallaða sem gekk á milli gamla og nýja Landsbankans er greiðsla fyrir eignir nýja Landsbankans, og það er komið í forgangskröfu. Það þýðir að verðmæti þrotabúsins ætti þá að vera meira. Þrotabú Landsbankans er að minnsta kosti áhættuminna núna en það var áður en þetta kom fram. Það kemur í ljós hvort þetta á eftir að verða að lögum eða ekki.

Það er eitt sem vekur mikla athygli í þeirri umfjöllun sem ég er með hérna og fjallað er um bæði í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2008 og í nefndaráliti. Það er að tölur eru á reiki og þeim ber ekki fullkomlega saman. Um er að ræða háar upphæðir, tugi milljarða og hundruð milljarða. Oft og tíðum gerir maður sér ekki alveg grein fyrir því hvort farið er með réttar tölur. Það virðist vera misræmi á milli skýrslna og umfjöllunar.

Þetta veldur mér nokkru hugarangri, vegna þess að tölurnar eru það stórar að örlítil frávik koma fram sem margir milljarðar, stundum tugir milljarða. Þetta er það sem við alþingismenn verðum að búa við, þetta er sú gagnameðferð sem er lögð fyrir okkur.

Áður heldur en lokafjárlögin fyrir árið 2008 lágu fyrir, var ég einhvern veginn búinn að ímynda mér að undirliggjandi rekstur ríkissjóðs hefði allur farið í rúst árið 2008. Svo er ekki, alls ekki. Fyrir utan þá tvo liði sem eru bein afleiðing af því áfalli sem við urðum fyrir í október 2008, er staðan býsna góð. Það eru tæpir 30 milljarðar í afgang. Það þætti góður afgangur ef við berum það saman við landsframleiðslu. Það þætti fyrirmyndarafgangur í hvaða ríki heims sem er, þrátt fyrir að seinustu þrjá mánuði ársins hafi efnahagslífið hreinlega rústast.

Þegar tekið er tillit til lífeyrisskuldbindinganna og afskriftanna vegna veðskulda Seðlabankans, eykst hallinn. Hann fer í að verða í kringum 14% af landsframleiðslu, sem er náttúrlega gríðarlega mikill halli. Þetta er kannski saga sem við ættum að segja frekar en að tala alltaf um ríkissjóðshallann, eins og hann stafi af afleitum rekstri ríkissjóðs. Þetta eru mikilvæg skilaboð sem þarf að færa, bæði matsfyrirtækjum og fjárfestum sem hefðu hugsanlega áhuga á því að fjárfesta hér á Íslandi. Þetta er kostnaður íslenska ríkisins, eða ríkissjóðs Íslands, af þessum skelli. Auðvitað á kostnaðurinn eftir að verða meiri, en þetta er obbinn af kostnaðinum.

Ef við skoðum t.d. Bandaríkin þá var þar svokölluð áætlun um að kaupa út eignir af efnahagsreikningi bankanna, lélegar eignir og eignir sem voru notaðar í fallinu. Þær komu í gegnum seðlabankann og voru ekki bókaðar inn á reikning hjá ameríska ríkinu, eftir því sem ég best skil. Þrátt fyrir það sýndi bandaríska ríkið halla upp á 13–15% þetta ár.

Ef við skoðum þetta í þessu samhengi, verð ég að lýsa því yfir að þrátt fyrir að það sé náttúrlega grábölvað að fá þessa skelli, afskriftirnar í Seðlabankanum og á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, held ég að við getum bara unað þó nokkuð sátt við það.