138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[16:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið en ég vil ómögulega láta hann gagnrýna mig fyrir að tekjur ríkissjóðs hafi dregist saman.

Aftur á móti held ég að þingmaðurinn og ég séum sammála um það að áfallinu, sem varð á skattstofnum ríkisins og útgjöldin sem urðu vegna atvinnuleysis og aukinna bóta og annars slíks, hefði verið hægt að afstýra að hluta ef hér hefði verið ríkisstjórn við völd sem hefði haft þá meðvitund sem þurfti til þess að takast á við vandann.

Fyrr í dag afgreiddum við fyrsta stóra atvinnumálið sem þessi ríkisstjórn hefur komið fram með, það fyrsta og eina. Ég vil gerast svo djarfur að halda því fram að meðvitundarleysi stjórnmálamanna hafi leitt yfir okkur mun dýpri kreppu en nokkurn tíma hefði þurft að verða í kjölfar þessa fjármálahruns. Við erum ekki enn búin að bíta úr nálinni með aðgerðaleysi stjórnvalda en vonandi veit það á gott þetta fyrsta atvinnumálafrumvarp, getum við sagt, sem samþykkt var hér fyrr í dag.