138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[16:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var gott að hv. þingmaður minnti mig á þær tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fyrir ári, einmitt til þess að koma í veg fyrir að þjóðin dytti jafndjúpt niður og hún er í dag, hún er sennilega á dýpsta punkti kreppunnar núna. Sú kreppa er óþarflega djúp vegna þess að menn gripu til rangra ráðstafana. Með því að skattleggja atvinnu, skattleggja fyrirtæki, skattleggja fjármagn, skattleggja allt það sem býr til atvinnu hafa menn aukið atvinnuleysið umfram það sem þarf. Það er mjög miður vegna þess að atvinnuleysi er mikil bölvun fyrir þjóðfélagið en alveg sérstaklega fyrir þá einstaklinga — og ég hef því miður þurft að tala við nokkra þeirra undanfarið — sem fá ekki atvinnu. Það er vægast sagt ömurlegt, það er svipað og að keyra í gegnum öskumökkinn þegar hann var sem mestur. Það er ömurlegt þegar ungt fólk útskrifast úr skóla og fær ekki vinnu.

Við lögðum til aðgerðir, t.d. skattlagningu séreignarsparnaðar, sem hefðu komið í veg fyrir þessa miklu og djúpu kreppu, sem hefðu aukið tekjur ríkissjóðs, sem hefðu skapað atvinnu í landinu og aukið tekjur ríkisins um leið, og dregið úr útgjöldum vegna bóta. Ég vil því þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á það og minna mig á það.