138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. framsögumanns, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þá er ég sammála þessu frumvarpi. En spurningar hafa vaknað sem mig langar til að reifa hér.

Við erum að samþykkja að útgreiðsla séreignarlífeyrissparnaðar verði ekki frádráttarbær frá atvinnuleysisbótum og húsaleigubótum en sama umræða hefur verið um námslán. Mér er ekki kunnugt um að frumvarp sé væntanlegt um að útgreiðsla séreignarlífeyrissparnaðar komi ekki til frádráttar námslánum en krafa námsmanna er orðin nokkuð rík um að útgreiðslan verði ekki til frádráttar námslánum. Mig langar til að heyra afstöðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur til þessa máls, hvort það sama eigi ekki að gilda um námslán og atvinnuleysisbætur og húsaleigubætur.