138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir þessa spurningu.

Eftir að ákvæðið um útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar fyrir 60 ára aldur var lögfest tímabundið haustið 2008, ef ég fer ekki rangt með, voru gerðar nokkrar breytingar á lögum til að forða því að það skerti bætur eða réttindi fólks í öðrum kerfum, m.a. almannatryggingakerfinu, og nú erum við að gera þessar breytingar bæði hvað varðar húsaleigubætur og atvinnuleysisbætur. Mér finnst algerlega ljóst að við þurfum að fara gaumgæfilega yfir það að þeir sem ganga nú á sparnaðinn sinn, sem átti að nýtast á efri árum, til að mæta þessum tímabundnu erfiðleikum eigi að sjálfsögðu ekki að þola aðrar skerðingar á móti. Ríkið hefur tekjur af skatti af þessum séreignarsparnaði sem er mjög heppilegt og ég ætla ekki að syrgja það, en það á ekki að verða til sparnaðar í öðrum bótakerfum almannatryggingakerfisins eða framfærslukerfum. Ég er því algjörlega sammála þingmanninum um það að í löggjöfinni þurfi að tryggja að ekki sé verið að refsa fólki fyrir að grípa til þess neyðarúrræðis sem það er í raun að taka út séreignarsparnaðinn sinn fyrir sextugt.