138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. félagsmálanefnd ætti nú bara að kalla til sín forsvarsmenn atvinnulífsins, SA og hugsanlega fleiri, og biðja þá um að hefja baráttu innan sinna vébanda að menn svari atvinnuumsóknum. Þetta er ekki bara eitthvert númer sem sækir um, heldur er þetta manneskja með væntingar um að fá vinnuna og hún bíður í ofvæni eftir að fá niðurstöðu sem kemur aldrei. Ég hef talað við mjög marga sem hafa kvartað undan því í gegnum tíðina. Auðvitað eiga öll fyrirtæki að hafa innbyggt ákveðið kerfi að svara um leið og búið er að ráða í stöðuna og þakka fyrir umsóknina o.s.frv., það er bara ósköp venjuleg kurteisi. Það er meira en það, hugsanlega er það niðurbrot á sjálfsvirðingu sem veldur því að langtímaatvinnuleysi er svona hættulegt eins og það er, einnig langtímaörorka, þannig að fyrirtækin ættu nú virkilega að taka sér tak, þótt það væri ekki nema í mannúðarskyni.