138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

húsaleigulög o.fl.

559. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á húsaleigulögum, lögum um frístundabyggð og leigulóðir undir frístundahús, lögum um fjöleignarhús, lögum um húsnæðismál og lögum um félagsþjónustu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Þá bárust umsagnir frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Norðurþingi, Reykjanesbæ, Alþýðusambandi Íslands, Kópavogsbæ, kærunefnd húsnæðismála, Magnúsi Sigurðssyni, Persónuvernd, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kærunefnd fjöleignarhúsamála, úrskurðarnefnd frístundahúsamála, Bláskógabyggð, Bændasamtökum Íslands, Grindavíkurbæ, Grímsnes- og Grafningshreppi, úrskurðarnefnd félagsþjónustu sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Sveitarfélaginu Árborg, Íbúðalánasjóði og Mosfellsbæ.

Með frumvarpinu er lagt til að fimm úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði húsa- og húsnæðismála verði sameinaðar og þeim fækkað í tvær. Lagt er til að kærunefnd fjöleignarhúsamála, kærunefnd húsaleigumála, og úrskurðarnefnd frístundahúsamála, verði sameinaðar í kærunefnd húsamála. Þá er lagt til að kærunefnd húsnæðismála og úrskurðarnefnd félagsþjónustu sveitarfélaga, sameinist í úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Að lokum er lagt til að fellt verði niður 15.000 kr. kærugjald til úrskurðarnefndar frístundahúsamála.

Ekki kom fram andstaða við þessa sameiningu nefndanna og það er ráðgert að hún lækki útgjöld ríkisins um 2–4 millj. kr. á ári vegna minni kostnaðar við nefndarstörf.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að hagrætt sé í starfi úrskurðar- og kærunefnda stjórnsýslunnar jafnframt því sem tryggt sé að sérþekking sé til staðar í tilteknum málaflokki við afgreiðslu mála. Telur nefndin frumvarpið framfaraskref í þessa átt þar sem nefndir eru sameinaðar en þeim sem eftir standa jafnframt gert kleift að leita ráðgjafar og kalla til sérfróða aðila sé þörf á.

Í nefndinni var m.a. rætt um allan þann fjölda úrskurðar- og kærunefnda sem væri á sviði ríkisvaldsins, ég man ekki töluna en þær eru á annað hundrað. Það væri eðlilegast að búa til sérstakan stjórnsýsludómstól og reyna þannig að ná fram skilvirkni í þessum úrskurðarnefndum. Nefndin taldi að það gæti orðið mjög til bóta fyrir réttarstöðu almennings.

Í umsögnum var hreyft við þeim sjónarmiðum að mikilvægt væri að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála birti úrskurði sína og miðli því sem betur megi fara til félagsþjónustu sveitarfélaga, en úrskurðarnefnd félagsþjónustu hefur til þessa ekki birt úrskurði sína. Í áliti sínu í máli 5060/2007 vakti umboðsmaður Alþingis athygli á nauðsyn þess að hugað yrði að því að úrskurðir nefndarinnar yrðu gerðir aðgengilegir. Sérstaklega þeir sem geta haft almenna þýðingu fyrir framkvæmd stjórnvalda, svo sem sveitarfélaga, og til skýringar á réttarstöðu borgaranna. Þá benti umboðsmaður á að úrskurðum æðra stjórnvalds og sjálfstæðrar úrskurðarnefndar væri framvegis ætlað að vera leiðbeinandi og fordæmi fyrir stjórnvöld við úrlausn sambærilegra mála og tryggja þannig réttarstöðu borgaranna.

Nefndin tekur undir sjónarmið umboðsmanns og umsagnaraðila hvað þetta varðar en áréttar þó að upplýsingar geta verið viðkvæmar og því þurfi að vega þessi atriði á móti persónuverndarsjónarmiðum. Málavextir eru oft með þeim hætti að þó svo að nöfn aðila og sveitarfélags séu ekki birt eru málin persónurekjanleg. Þá eiga oft svipuð rök við og um úrskurði í barnaverndarmálum, en slíkir úrskurðir eru ekki birtir.

Ljóst er að þörf er á leiðbeinandi reglum við úrlausn mála af þessu tagi og leggur nefndin því til að úrskurðarnefndin skili ráðherra skýrslu tvisvar á ári sem jafnframt verði send sveitarfélögunum. Í skýrslunni verði upplýsingar settar fram í samandregnu formi þar sem tilteknar eru helstu niðurstöður úr úrskurðum og þær reglur sem draga megi af þeim án þess að persónugreinanlegar upplýsingar komi fram.

Þá leggur nefndin til smávægilega breytingu til leiðréttingar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í fyrsta lagi leggjum við til breytingu við 18. gr. í stað „4. mgr.“ í d-lið komi: 3. og 4. mgr.

Í öðru lagi erum við með breytingartillögu við 24. gr. d-lið sem orðast svo: „Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo: Nefndin skal eigi síðar en 15. maí ár hvert skila félags- og tryggingamálaráðherra skýrslu um störf sín og helstu niðurstöður og þær leiðbeinandi reglur sem greina má út frá úrskurðum nefndarinnar. Upplýsingar sem koma fram í skýrslunni skulu vera á samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónugreinanlegir. Skýrsluna skal senda sveitarfélögum og birta opinberlega. Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um störf og skrifstofuhald úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.“

Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið ritar Pétur H. Blöndal, Margrét Pétursdóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Þuríður Backman, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, framsögumaður.