138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun. Þetta mál er á margan hátt mjög athyglisvert. Í fyrsta lagi er það þingmannamál og það er ánægjulegt að sjá að þingið er í auknum mæli farið að taka þingmannamál til afgreiðslu. Að sjálfsögðu ætti að vera miklu meira um það.

Það er reyndar einn galli við þessa tillögu, sem ég ætla að koma strax inn á, og það er að í tillögunni er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra verði falið að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð, allt í lagi með það, en að ráðherra leggi fram tillögur um útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi um nauðsynlegar lagabreytingar. Mér finnst alltaf ankannalegt þegar Alþingi skorar á einhverja að semja lög. Það er náttúrlega Alþingi sjálft sem á að semja lögin og það hefði verið miklu betri bragur á því að hv. nefnd hefði skorað á sjálfa sig að flytja um þetta nauðsynlegt lagafrumvarp og fá til þess aðstoð ef á þyrfti að halda. Ég held reyndar að nefndin þurfi ekki aðstoð í þeim efnum því að hún er sennilega mjög vel fær um, með aðstoð hins ágæta nefndasviðs Alþingis, að semja svona lög.

Það sem ég hef við þetta að athuga er að það stendur til að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar og slík tilfærsla er yfirleitt stór biti að kyngja, t.d. var það allstór biti þegar sveitarfélögin tóku yfir grunnskólann. Þess vegna finnst mér dálítið varasamt hvað menn hengja margt við aðgerðina vegna þess að hættan er sú að málin skolist til, fari úr böndunum eða að eitthvað gerist sem menn gerðu ekki ráð fyrir. Þess vegna legg ég til að þegar þessi ágætu frumvörp verða flutt á haustþingi, sem ég er mjög hlynntur, geri nefndin það bara sjálf, taki sumarið til þess og verði rösk, myndi jafnvel undirhóp sem semur frumvarp og miði þá við dagsetningu eftir að sveitarfélögin hafi tekið málefnin yfir, segjum 1. október 2011 þegar komin er kyrrð og ró á það að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Þó að sum tilraunasveitarfélög hafi þegar tekið þessi mál yfir og komin sé ágætisreynsla á það, bæði á Akureyri og Húsavík og mig minnir á Hornafirði, er ekki á bætandi að hlaða of miklu á þau í einu. Þetta var um tímasetninguna.

Einnig þarf að gæta að því að þegar komið er með nýtt kerfi er alltaf dálítil hætta á misnotkun. Öll kerfi bjóða upp á misnotkun og þegar menn fara að stýra þjónustunni sjálfir er hættan sú að þeir fái til þess einhvern ættingja eða annan sem stendur sig svo ekki í stykkinu, þá er ekkert gert í því og þjónustan fæst ekki. Menn þurfa að gæta að því að svo verði ekki.

Hins vegar hef ég verið sannfærður um að þetta þurfi ekki endilega að leiða til útgjaldaauka. Stofnanir eru nefnilega óskaplega dýrar, stundum svo dýrar að fólk trúir því ekki. Ég held að fáir trúi því að það kosti 300 þús. kr. að liggja einn dag inni á gjörgæslu, að það sé komið bílverð eftir tíu daga legu á gjörgæslu. Á bak við það stendur reyndar heilmikið af mjög færu fólki sem þarf að vera stöðugt til taks o.s.frv. Ég nefni líka að ekki margir trúa því að það kosti 160 þús. kr., minnir mig að það sé, að hafa eitt barn á leikskóla á mánuði. Ég er ekki viss um það, sérstaklega af því að það eru láglaunastörf sem standa að uppeldi þessara barna, því miður. Stofnanir verða því oft mjög dýrar og þess vegna getur vel verið að það að menn velji sér persónulega aðstoð og stýri henni sjálfir leiði til mikið skynsamlegri niðurstöðu, bæði fjárhagslega og alveg sérstaklega hvað varðar að þjónustan getur orðið betri þegar menn gera kröfur til hennar sjálfir og standa sjálfir að því að velja fólkið. Ég held því að þetta sé á margan hátt mjög gott frumvarp og finnst alveg sjálfsagt að fara í gegnum það og skoða hvort þetta sé ekki ódýrara og betra á margan hátt en sú gífurlega stofnanavæðing sem hefur verið hér.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á þeim 18 árum sem hann var í ríkisstjórn bætt stöðu fatlaðra gífurlega mikið. Gert var mikið átak í því að bæta stöðuna. Þar með er ekki sagt að hún sé orðin góð en hún var ekki beysin fyrir, hún var vægast sagt mjög slæm. Það er sem sagt búið að gera heilmikið átak og ég held að það sé alveg sjálfsagt að menn séu á tánum og haldi áfram að bæta þjónustuna. Það þyrfti ekki endilega að vera bara gagnvart fötluðum heldur einnig öldruðum sem þurfa þjónustu og geta eflaust stýrt henni mikið betur sjálfir eða aðstandendur þeirra en einhver stofnun úti í bæ sem annast fullt af fólki. Þar er viðkomandi bara númer eða kennitala í bókunum, og nú á að sinna þessari kennitölu: Farðu svo í hina kennitöluna o.s.frv. Þá er hætt við að þetta verði dálítið sundurlaust enda hafa komið fram margar kvartanir um að þjónustan sé ekki nógu persónuleg.

Ég gat því ekki annað en skrifað undir frumvarpið með fúsum vilja og var mjög áfram um það. Ég tel að þetta sé mikið framfaraskref og framhald þess sem minn ágæti flokkur hefur unnið að á síðustu tveimur áratugum eða svo í því að bæta stöðu fatlaðra.