138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag er gleðidagur fyrir fólk sem unnið hefur að málefnum fólks með fötlun því að unnist hefur mikill áfangasigur í því að gera þjónustu við það persónulega og notendastýrða, að fara raunverulega úr talsvert miðstýrðri og stofnanalegri þjónustu yfir í persónulega og notendastýrða þjónustu sem skiptir afar miklu máli. Fólk með fötlun er fólk sem getur í raun og veru lifað eðlilegu lífi. Hægt er að minnka þær hamlanir sem fötlunin getur valdið með því að láta fólkinu í té þá þjónustu sem það þarf á að halda til að geta lifað sjálfstæðu lífi. Þannig skiptir miklu máli að markmiðið með þessari þingsályktunartillögu, sem vonandi skilar sér síðan í löggjöf í haust, er það að fatlað fólk geti almennt notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk. Þetta skiptir okkur mjög miklu máli.

Mér finnst líka skipta mjög miklu máli þegar við erum komin með þessa stefnuyfirlýsingu um málefni fólks með fötlun að við vinnum markvisst og ákveðið að því að skapa samfélag án aðgreiningar, af því að aðgreiningin og hömlunin er fyrst og fremst til staðar vegna þess að búnar eru til einhverjar takmarkanir sem má gjarnan ryðja úr vegi með réttri þjónustu. Ég held að það sé góður tímarammi að setja þessa löggjöf af stað í haust þegar við flytjum þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna vegna þess að þetta er sannkölluð nærþjónusta, sem er sú þjónusta sem sveitarfélögunum fer svo vel að vinna. Ég held að þá sé góður tími til þess. En að sjálfsögðu verðum við að tryggja það að sveitarfélögin fái það fjármagn sem til þarf til að geta sinnt þessari þjónustu eins vel og þörf er á.

Mig langar til að minnast á að í málaflokki fatlaðra er afar hæft fagfólk sem við getum nýtt mjög vel til að koma þessari þjónustu á. Notendastýrð persónuleg aðstoð er auðvitað ekki alveg ný á Íslandi. Sem betur fer vitum við að nokkrir einstaklingar sem búa við fötlun hafa notið þjónustu af þessu tagi en fólk hefur þurft að berjast sérstaklega fyrir henni vegna þess að hún hefur í raun og veru ekki verið til í kerfinu. Þetta er því mikil réttarbót að koma þessu máli í gegn. Mig langar líka til að benda á það sem kemur fram í greinargerð með tillögunni að það er í raun og veru tvöfaldur ávinningur af þessari þjónustu. Bæði er verið að vinna að aukinni virkni þjóðfélagsþegna og auka möguleika fatlaðs fólks til að verða þátttakendur í atvinnulífinu og í einkalífi auk þess sem við erum vonandi að skapa innihaldsrík og gefandi störf sem ekki veitir af núna þar sem því miður eru um 15 þúsund einstaklingar skráðir á atvinnuleysisskrá. Ég held að þetta sé afar þarft og gott mál. Ég óska bæði baráttufólkinu á meðal fólks með fötlun og eins flutningsmönnum tillögunnar til hamingju og ég hlakka til að fylgjast með málinu áfram.