138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[18:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér í seinni umr. þingsályktunartillögu um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun. Ég fagnaði þessari þingsályktunartillögu og ég fagna líka því nefndaráliti sem hér liggur fyrir vegna þess, frú forseti, að með þessu gefst fötluðum einstaklingum tækifæri til að velja hvers konar þjónustu þeir telja að nýtist þeim best. Það mun að mínu mati skipta mestu fyrir hinn fatlaða að ráða því sjálfur hvers konar þjónustu hann fær og þess vegna fagna ég þingsályktunartillögunni.

Ég óska þess að fram komin þingsályktunartillaga í þessa veru verði einnig til þess að þingið fari í endurskoðun löggjafar t.d. þegar horft er til og tekið er mið af örorku einstaklinga og örorkubótum, að við breytum því hugarfari sem ríkt hefur fram til þessa og metum starfsorku einstaklingsins fyrst og örorkuna síðar, að við styðjum sem flesta einstaklinga, hvers konar fötlun eða hömlun sem þeir eiga við að stríða, til almennrar þátttöku í samfélaginu. Það hlýtur að skipta hvern og einn einstakling afar miklu máli. Við sem erum heilbrigð íhugum það væntanlega sjaldnast hve mikill fengur er fólginn í því að vera almennur þátttakandi í samfélaginu, að hafa til þess réttinn, hafa til þess valið og vera þar. Hinir fötluðu eiga að sjálfsögðu réttinn en þeir eru oft bundnir því að hafa í raun og veru ekkert val vegna þess að umhverfið hefur verið með þeim hætti fram til þessa. Vonandi erum við með þessari þingsályktunartillögu að stíga skref til að bæta og auðga líf þeirra einstaklinga sem búa við hvers konar fötlun, hún getur verið misjöfn eins og við vitum, og það er þá val einstaklingsins hvers konar þjónustu hann óskar eftir að fá og hver veitir hana. Og með þessari þingsályktunartillögu hverfum við frá því sem oft hefur verið nær okkur í hugsun, að koma fólki fyrir einhvers staðar þar sem það er í samfélagi við aðra sem eru áþekkir hvað varðar fötlun og sumir eru fatlaðri en aðrir, að koma fólki fyrir inni á ýmiss konar stofnunum. Með þeirri hugmyndafræði sem hér er lögð fram erum við væntanlega að hverfa frá slíku.

Ég get tekið sem dæmi um slíka stofnanahugsun að í mínu sveitarfélagi, Mosfellsbæ og Mosfellssveit, voru til skamms tíma tvær stórar stofnanir, annars vegar Tjaldanes og hins vegar Skálatún. Tjaldanes hefur verið lagt niður en Skálatún er enn við lýði. Þar fer fram afar merkilegt og gott uppbyggingarstarf. Sveitarfélagið Mosfellsbær hefur stundum óskað eftir því, og reyndar margoft, að aðrir fatlaðir einstaklingar sem búa á sambýlum í sveitarfélaginu Mosfellsbæ geti fengið að nýta sér þá þjónustu sem fram fer í margs konar uppbyggingu, í handavinnu, í ýmiss konar vinnu og þjálfun á Skálatúni. Nei, við þurfum að keyra fatlaða einstaklinga á sambýlum í Mosfellsbæ annaðhvort í Kópavog eða Hafnarfjörð þrátt fyrir að hafa þessa glæsilegu, góðu og uppbyggjandi stofnun í sveitarfélagi okkar vegna þess að það er einhver rígur á milli þess sem heitir svæðisþjónustan og sjálfseignarstofnunin Skálatún. Þá erum við ekki að horfa til þess sem skiptir máli fyrir hina fötluðu einstaklinga sem verið er að þjónusta, við erum ekki að velta því fyrir okkur hvað er best fyrir þá vegna þess að að sitja í bifreið frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar tvisvar í dag í stað þess að geta gengið til vinnustaðar er eitthvað sem vegur ekki alveg jafnt ef horft er til einstaklingsins.

Frú forseti. Það sem verður kannski mikilvægast, nái þessi þingsályktunartillaga fram að ganga og það sem verður kannski viðamest er hvað muni standa í því frumvarpi sem lagt verður fram. Hver verður kostnaðurinn við það að færa og breyta þjónustunni í það sem hér er lagt til? Það skiptir meginmáli þegar farið er í þá vinnu að löggjafinn verði í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin í heild vegna þess að við ætlum að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna um áramótin 2010/2011. Það er alveg ljóst að í upphafi munu ekki allir fatlaðir fallast á eða óska eftir notendastýrðri persónulegri þjónustu en þeim einstaklingum sem óska eftir slíku mun örugglega fjölga hratt. En þessa þjónustu verður að kostnaðargreina eins og alla aðra og ríkið, sem hefur stýrt þessum málaflokki sjálft fram til þessa, verður að vera tilbúið til að sjá sveitarfélögunum fyrir tekjustofnum til að þau geti sinnt þjónustunni, ekki bara eins og hún er í dag heldur líka með tilliti til þeirra breytinga sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir.

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá tillögu sem þessa. Það er ánægjulegt að við skulum vera að veita fólki val um hvernig það vill lifa sínu lífi, fólki sem stofnanir eða aðrir hafa hingað til oft hugsað fyrir. Hér hafa einstaklingar val og það finnst mér skipta meginmáli. Við erum án efa, frú forseti, að styðja einstaklinga til almennrar og meiri þátttöku í samfélaginu en ýmsir fatlaðir einstaklingar hafa notið fram til þessa. Það eru og verða mestu lífsgæðin sem löggjafinn getur veitt því fólki. Það á náttúrlega ekki að tala um „þetta fólk“ heldur einstaklinga sem á einn eða annan hátt eru fatlaðir. Það er stærsta gjöfin, það eru mestu lífsgæðin sem Alþingi getur veitt fólki sem býr við einhvers konar fötlun, verði þessi þingsályktunartillaga að veruleika. Síðan þurfa ríki og sveitarfélög að hafa kjark til að setja það fjármagn sem til þarf í notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fólk með fötlun svo að hún komi að gagni. Það skiptir meginmáli hvernig það verður gert og þar dugar ekkert hálfkák, frú forseti.