138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 38/2005, um happdrætti, frá allsherjarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Krabbameinsfélaginu, Íslenskum getraunum og Íslenskri getspá.

Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrt á um að bann við að auglýsa, kynna eða miðla upplýsingum um happdrætti, sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum um happdrætti, taki einnig til starfsemi sem rekin er erlendis.

Nefndin fjallaði um frumvarpið sem felur í sér að b-liður 1. mgr. 11. gr. laganna er tekinn upp í heild þó að einungis sé verið að bæta við hann. Nefndin telur að þegar litið er til sjónarmiða um skýrleika í lagasetningu sé rétt að leggja til viðbót við stafliðinn án þess að hreyft sé við honum öllum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. gr. orðist svo:

Við b-lið 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu. Undir það rita, auk undirritaðs, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Birgir Ármannsson, Ögmundur Jónasson, Gunnar Bragi Sveinsson og Þráinn Bertelsson.